Rigningin setti sterkan svip á alla helgina og þar með kappaksturinn í dag. Verstappen þurfti að byrja í 17. sæti en vann sig framar og kom sér fram úr Esteban Ocon í efsta sætið þegar keppni var endurræst á 43. hring af 69. Hann hélt forystunni til enda og vann öruggan sigur, eða rétt tæpum tuttugu sekúndum á undan næsta manni.
Verstappen er þar með kominn með 393 stig og er 62 stigum á undan næsta manni, Lando Norris, þegar aðeins þrír kappakstrar eru eftir. Hann gæti því fagnað heimsmeistaratitlinum í Las Vegas síðar í þessum mánuði. Þó var þetta fyrsti sigur Verstappen síðan á Spáni í júní.

Árangur Alpine-liðsins vakti ekki síður athygli í dag en Esteban Ocon náði 2. sæti og Pierre Gasly 3. sætinu.
George Russell úr Mercedes varð í 4. sæti og Charles Leclerce úr Ferrari í 5. sæti.