Eygló Fanndal Sturludóttir varð í gær Evrópumeistari ungmenna í ólympískum lyftingum í 71 kílóa flokki U23 (21-23 ára) en mótið var haldið í Póllandi.
Eygló náði ekki aðeins í gullið því hún setti um leið nýtt Norðurlandamet í fullorðinsflokki í samanlögðum árangri þegar hún lyfti 104 kílóum í snörun og 133 kílóum í jafnhendingu.
Þetta gerir alls 237 kíló samanlagt sem var bæting á hennar eigin meti í samanlögðu um eitt kíló.
Til að setja árangur hennar í samhengi þá má bera árangur hennar við síðustu Ólympíuleika.
Eygló lyfti 26 kílóum meira en næsti keppandi og hefði árangur hennar dugað til sjötta sætis á Ólympíuleikunum í París síðastliðið sumar. Hún hefði líka náð í silfur á Evrópumeistaramóti fullorðinna.
Guðný Björk Stefánsdóttir átti einnig frábæran dag en hún varð í þriðja sæti í sama þyngdar- og aldursflokki. Guðný Björk lyfti næst þyngst allra keppenda í snörun eða 96 kílóum og 114 kílóum í jafnhendingu. Það gera samanlagt 210 kíló.
Lyftingasamband Íslands segir frá þessu og skemmtilegri stund þegar Harpa, móður Eyglóar, hlotnaðist sá heiður að fá að afhenda verðlaunin fyrir samanlagðan árangur.