Skoðun

Kunnum við að rífast?

Katrín Þrastardóttir skrifar

Í samskiptum og samvinnu við fólkið í lífi okkar, hvort sem um ræðir fjölskyldumeðlimi, maka, vini eða vinnufélaga er eðlilegt að greina stundum á. Fólk byggir hegðun sína og samskipti á ólíkum gildum og viðhorfum. Ástarsambandið er ekki undanskilið þessu.

Áralangar rannsóknir á pörum hafa sýnt að þau sem eru góð í að takast á við ágreining – þau sem kunna að rífast – eru margfalt líklegri til þess að eiga í löngu og hamingjuríku sambandi heldur en þau sem eiga í vandræðum með að takast á við ágreining. En hvernig veit ég hvort ég sé góð í að rífast?

Einn af lykilþáttum í að viðhalda heilbrigðu ástarsambandi er að vera góð í að takast á við ágreining í sameiningu. Það getur komið sér vel að vera góður í að vera óánægður og kunna að velja viðbörgðin sín. Við erum mörg gjörn á að bregðast við á sjálfsstýringu án þess að velta fyrir okkur hvernig væri heppilegast að bregðast við. Það getur verið freistandi eða jafnvel sjálfvirkt viðbragð að grípa til ásakana, gagnrýna og fara í vörn en hjálplegra er að mæta til leiks með viljann að vopni. Það er viljann til þess að komast að samkomulagi og gera málamiðlanir. Með því erum við að velja viðbrögðin okkar. Viljinn til samvinnu kemur okkur hálfa leið.

Þau pör sem eru gjörn að bregðast við með vörn og/eða ásökunum eru ekki að mæta ágreiningnum í sameiningu og persónugera vandann jafnvel, þ.e. fara að kenna hvort öðru um í stað þess að líta á vandann sem sjálfstæðan og leita lausna í sameiningu. Þessi pör eru því miður ólíklegri til þess að endast og eiga í hamingjuríku ástarsambandi. Örvæntið þó ekki, því það er vel hægt að læra að rífast með árangursríkari hætti.

Ef ástarsambandið er orðið fast í hjólförum vanans, jafnvel farið að taka orku frekar en að gefa orku, ef við erum farin að glíma við tíðan ágreining eða ef við hreinlega viljum hressa upp á samskiptin, þá getur reynst gagnlegt að leita til fagaðila og fá stuðning. Parameðferð hjá fjölskyldufræðingi er ekki bara árangursríkt úrræði sem byggir á gagnreyndum aðferðum heldur getur líka verið skemmtilegt og fræðandi að sækja slíka meðferð og vinna þannig að hamingjuríku ástarsambandi.

Höfundur er fjölskyldufræðingur hjá Auðnast Klíník.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×