Skoðun

Þessi bölvaði hag­vöxtur, þurfum við kannski bara annað hrun?

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Við athuganir á kennaraskortinum alræmda, tók ég eftir því að á ákveðnu tímabili dró úr honum. Tímabili sem hófst haustið 2008, þegar hér varð fjármálahrun sem er greypt í þjóðarsálina. Þá jókst hlutfall kennara við störf í skólum landsins. Aðföngin spruttu fram.

En er hægt að tala um skort þegar aðföng eru til staðar? Aðföng sem voru bara vant við látin við að sinna öðrum störfum á almennum markaði á meðan veislan var í gangi og hagvöxtur blússandi.

En 2008 steyptist almenni markaðurinn svo til beint á andlitið með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenskt samfélag. Í kjölfarið var gríðarlegt atvinnuleysi og neyddust þá kennarar til að hverfa frá öðrum störfum og fara aftur að kenna.

Nú talar fólk um kreppu, háa stýrivexti og húsnæðismarkaðinn, en hvers vegna sést ekki sama þróun núna og 2008? Hvar eru þessi aðföng? Eru hlutirnir ekki nógu slæmir enn sem komið er?

Þurfa hlutirnir að versna svo aðföngin, sem hafa horfið frá kennarastörfum, séu tilneydd til baka? Er best að þeir sem kenna geri það af illri nauðsyn?

Er það hagvöxturinn og kaupmáttaraukning sem heldur þeim frá?

Hugnast þeim frekar að vinna þar sem hægt er að biðja um launahækkun fyrir vel unnin störf?

Er kennarastarfið yfirhöfuð samkeppnishæft? Á þetta eingöngu að vera hugsjónastarf?

Það virðist að minnsta kosti enn sem komið er auðvelt að finna eitthvað annað að gera. Starf sem er kannski bara minna vesen.

Kannski þarf bara annað hrun?

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×