Handbolti

Íslendingalið Gummersbach marði botnliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur er þjálfari Gummersbach. vísir / anton brink

Íslendingalið Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann nauman tveggja marka sigur er liðið heimsótti botnlið Potsdam í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Gestirnir í Gummersbach náðu þriggja marka forystu snemma leiks, en heimamenn jöfnuðu metin á ný stuttu síðar. Lítið var skorað í fyrri hálfleik og liðin gengu til búningsherbergja þegar allt var jafnt, 10-10.

Í síðari hálfleik höfðu heimamenn í Potsdam yfirhöndina framan af, en náðu þó aldrei meira en tveggja marka forskoti. Gestirnir náðu loksins að jafna og komast yfir þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka og unnu að lokum tveggja marka sigur, 26-28.

Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach sem nú situr í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir níu leiki, en Potsdam er enn án stiga á botni Deildarinnar. Teitur Örn Einarsson tók ekki þátt í leik kvöldsins vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×