Gestirnir byrjuðu leikinn frábærlega og leiddu 12-32 eftir fyrsta leikhluta.
„Virkilega ánægður með byrjunina. Við vorum miklu orkumeiri heldur en þeir. Það var svona töggur í okkur, svona vill maður hafa þetta. Helst allar fjörutíu en maður fær ekki allt sem maður vill.“
Þrátt fyrir frábæra byrjun Tindastóls náðu Grindvíkingar smám saman vopnum sínum og voru hársbreidd frá því að stela sigrinum í lokin. Benni viðurkenndi fúslega að það hefði farið um hann á bekknum á lokasekúndunum.
„Að sjálfsögðu! Þetta er aldrei komið og þeir settu stórar körfur í lokin. Voru nálægt því að hirða þetta af okkur þannig að það munaði ekki miklu. Ég hefði náttúrulega viljað klára þetta á meira sannfærandi hátt en ég er bara ánægður með að vinna leikinn. Fá tvö stig og vinna bara hérna mjög gott lið.“
Stólarnir voru að skjóta stórkostlega fyrir utan framan af leik en nýtingin var langt fyrir ofan 60 prósent lengi framan af.
„Það er alltaf markmiðið að hitta úr öllum skotum, allavegana sem flestum.“
Var það varnarleikurinn hjá Grindavík sem var að gefa ykkur þessi færi og nýtingu?
„Nei, mér fannst við bara vera að fá góð skot. En svo náttúrulega bara svara þeir og jafna ákefðina í leiknum. Mér fannst þeir hálf flatir í byrjun. En ef þú ert bara vel stilltur andlega þá hittirðu betur á vellinum og mér fannst mínir menn vel stilltir andlega.“
Benni vildi þó ekki meina að hann ætti heiðurinn af því að stilla sína menn af.
„Þeir gera það bara sjálfir. Ég segi eitthvað og óska eftir einhverju viðhorfi en svo er það bara þeirra að koma með það. Þeir gerðu það og vonandi verður þetta bara alltaf. Það á margt eftir að gerast. Þetta er bara einn leikur og svo er bara næsti leikur í næstu viku.“