„Við höfum séð þetta á Instagram og TikTok. Margir fjölmiðlar hafa haft samband. Þetta er mjög skemmtilegt. Það er ótrúlegt hvað þetta er orðið að stóru dæmi. Þetta hefur aldrei gerst áður svo þetta er algjörlega súrrealískt,“ segir Nellie Bengtsson, sautján ára markvörður Ängelholm.
Hún fékk að taka vítaspyrnu í næstsíðustu umferðinni og skoraði úr henni, og gerði þar með einu marki meira en öll liðin sem spiluðu á móti henni á leiktíðinni.
Ängelholm tókst engu að síður ekki að vinna deildina sem það spilar í, 4. deild, heldur endaði það í 2. sæti. Liðið vann fimmtán leiki, og skoraði í þeim samtals 78 mörk, en gerði þrjú markalaus jafntefli. Ljungbyhed vann deildina og komst beint upp í 3. deild, en Ängelholm er núna í umspili um að komast upp.
Það að Ängelholm hafi ekki fengið á sig eitt einasta mark í átján leikjum hlýtur þó að teljast einstakt afrek:
„Þetta er ótrúlegt. Ég hef þjálfað fótbolta í tíu ár og aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Ég hef aldrei heyrt um neitt svona. Þetta er vissulega mjög skemmtilegt en það er skrýtin tilfinning að hafa ekki unnið deildina,“ sagði Ulf Johansson, þjálfari Ängelholm.
Johansson segir að þegar liðið hafi á leiktíðina hafi mótherjar Ängelholm farið að breyta um taktík og reynt allt til þess að brjóta ísinn.
„Í síðustu 5-6 leikjunum einbeittu allir sér að því að skora gegn okkur. Þeim var alveg sama þó að það myndi enda með tapi. Það vildu allir brjóta ísinn og koma inn einu marki hjá okkur. Sem betur fer tókst okkur að koma í veg fyrir það,“ sagði Johansson og bætti við:
„Við höfum spilað ótrúlega góða vörn. Við erum líka með mjög góðan markvörð en allt liðið á sinn þátt í þessu.“