Erlent

Sau­tján daga fyrirburi tekinn af sjúkra­húsi í París

Samúel Karl Ólason skrifar
Umfangsmikil leit stendur nú yfir í París. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Umfangsmikil leit stendur nú yfir í París. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Carl Recine

Lögreglan í París hefur lýst eftir sautján daga gömlum fyrirbura sem tekinn var frá sjúkrahúsi í borginni í gær. Foreldrar drengsins liggja undir grun og eru þau talin hafa tekið barnið af sjúkrahúsinu seint í gærkvöldi.

LeParisien segir tilkynningu hafa borist til lögreglunnar skömmu eftir miðnætti í gærkvöldi. Sökum þess að drengurinn, sem heitir Santiago, fæddist nokkuð löngu fyrir settan dag þarfnast það mikillar umönnunar og er áætlað að það geti ekki lifað af utan sjúkrahúss í meira en tólf tíma.

Miðillinn hefur einnig eftir forsvarsmönnum sjúkrahússins þar sem barnið var að starfsfólk hafi rætt við foreldra Santiago seint í gærkvöldi. Þá voru þau á leið út af sjúkrahúsinu og voru þau spurð hvort þau kæmu aftur þegar drengurinn fengi pela um miðnætti.

Þau svöruðu játandi.

Foreldrarnir voru með litla tösku, sem vakti ekki athygli starfsfólksins, en skömmu síðar tók hjúkrunarfræðingur eftir því að barnið var horfið. Foreldrarnir sneru ekki aftur á sjúkrahúsið og er talið að drengurinn hafi verið í töskunni.

Foreldrar Santiago eru 23 ára maður og 25 ára kona og hefur lögreglan birt myndir af þeim og beðið fólk um að hafa augun opin. Fólk sem sér þau er beðið um að hafa samband við lögreglu og ekki reyna sjálft að koma barninu til bjargar.

Búið er að leita á heimili fólksins og fundust þau ekki þar. AFP fréttaveitan hefur þó eftir lögreglunni að nokkrar handtökur hafi verið framkvæmdar við rannsókn lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×