Íslenski boltinn

Á­fram á Ís­landi og ætlar sér marka­metið

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Kjartansson skoraði sex mörk í sumar fyrir KA, á tveggja mánaða tímabili.
Viðar Örn Kjartansson skoraði sex mörk í sumar fyrir KA, á tveggja mánaða tímabili. vísir/Diego

Viðar Örn Kjartansson segir að sér líði vel á Akureyri en óvíst er hvort að hann spili áfram með KA í Bestu deildinni í fótbolta á næstu leiktíð.

Viðar átti sinn þátt í fyrsta bikarmeistaratitli KA, sem liðið tryggði sér með sigri á Víkingi í september, og skoraði sex mörk í Bestu deildinni í sumar.

Hann kom til KA í vor eftir langan og litríkan feril í atvinnumennsku, en missir af síðustu tveimur leikjum liðsins vegna keppnisbanns sem FIFA dæmdi hann í, vegna skuldar við búlgarska félagið CSKA 1948. 

Viðar verður því ekki með gegn Fram í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardag, þegar KA getur tryggt sér efsta sætið í neðri hluta deildarinnar, eða 7. sætið ef horft er á deildina sem eina heild.

Samningur Viðars við KA rennur út í næsta mánuði og því gæti verið að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

Var lengi í form en stefnir á markametið á næsta ári

„Ég mun ræða við KA. Það er auðvitað leiðinlegt að enda svona [í banni], eftir að hafa unnið bikarinn og vera núna hársbreidd frá „forsetabikarnum“. En ég mun ræða við KA-menn og mér líður vel á Akureyri. Maður er bara spenntur að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Viðar í samtali við Vísi í gær.

Þegar Viðar kom til Íslands í vor sagðist hann stefna á að komast aftur út í atvinnumennsku, í von um að ljúka ferlinum þar á betri nótum en í Búlgaríu.

Núna segir hann hins vegar ljóst að hann spili áfram á Íslandi:

„Fótbolti er tölfræði og ég átti sirka tólf leiki í byrjun móts, flesta af bekknum, þar sem ég skoraði ekki mark. Var svolítið lengi í form, ég viðurkenni það. Maður þarf að ná heilu góðu tímabili, þannig að ég er ekkert að spá í þessu í dag. Ef það kemur þá er það bónus. En núna hugsa ég um að vera á Íslandi næsta sumar og slá þetta blessaða markamet,“ segir Viðar.

Markametið í efstu deild á Íslandi er sem stendur 19 mörk. Sá eini til að ná þeim fjölda á þessari öld, þrátt fyrir fjölgun leikja, er Andri Rúnar Bjarnason, núverandi leikmaður Vestra, sem skoraði 19 mörk fyrir Grindavík árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×