Innlent

Sjálf­stæðis­flokkurinn skuldi kjós­endum skýringar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ólafur Adolfsson hefur tekið við forystu Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Ólafur Adolfsson hefur tekið við forystu Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Aðsend

Ólafur Adolfsson nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi segir Sjálfstæðisflokkinn skulda kjósendum sínum skýringar. Það hafi verið röng ákvörðun að halda áfram í ríkisstjórnarsamstarfinu. Í flokknum sé verið að skipta út fólki því kjósendur vilji nýjar áherslur.

Ólafur var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun ásamt Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni Rafiðnaðarsambandsins en hann hefur gefið kost á sér í 2. sæti á lista Samfylkingar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

„Ég er jafnaðarmaður og sá hópur sem ég tilheyri. Þetta er ekki mjög flókið,“ segir Kristján Þórður um það af hverju hann valdi Samfylkinguna.

Sjálfkjörinn í Norðvestur

Ólafur Adolfsson var um helgina sjálfkjörinn í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi en fyrrverandi oddviti Teitur Björn Einarsson sóttist ekki eftir sæti á lista eftir að hafa ekki náð kjöri í 2. sæti listans

Ólafur segist hafa verið Sjálfstæðismaður lengi og gildi flokksins séu þau sem hann lifi í lífinu.

„Að verðlauna einstaklingsframtakið, að nýta það besta úr hverjum einstaklingi og að allir fái jöfn tækifæri til að nýta krafta sína,“ segir Ólafur sem er lyfsali á Akranesi.

Hann segir að til þess að búa til verðmæti verði hvati og Sjálfstæðisstefnan sé leiðarvísir að því. Hann segir flokkinn undanfarið ekki hafa fylgt þessari stefnu og þess vegna hafi hann boðið sig fram.

„Það var auðvitað þannig að þegar komið var að máli við mig núna var ég búinn að taka ákvörðun um að vera ekki meira í pólitík,“ segir Ólafur en hann sat í átta ár í sveitarstjórn í Borgarnesi. Þetta sé erfið og krefjandi vinna sem fari ekki alfarið með því að reka fyrirtæki.

„En ég horfi bara á málið núna þannig að það sé nauðsynlegt að taka gott fólk og bjóða því að fylgja Sjálfstæðisstefnunni eftir og ég hef kosið að gera það.“

Langtímaverkefni að breyta kerfinu

Kristján Þórður segir alla þurfa að hafa jöfn tækifæri til að sækja fram í lífinu. Sem dæmi eigi menntakerfið að standa öllum til boða en geri það ekki í dag. Sem dæmi standi ekki öllum til boða að mennta sig sem iðnaðarmenn sem það vilja. Þá segir hann heilbrigðiskerfið þurfa að styðja við fólkið og taka á móti því en það sé ekki í dag eins og það eigi að vera.

Hann segir þetta langtímaverkefni en það þurfi að markvisst forgangstaða þannig að það sé hægt að byggja kerfin upp á réttlátari hátt.

Ólafur ræddi lyfjakerfið og aðkomu ríkisins. Flestir hafi ráð á því að kaupa þau lyf sem þau þurfi en ríkið taki ekki þátt í greiðsluþátttöku allra lyfja. Það geti verið erfitt þegar það er ekki gert. Ólafur segir auðvitað ekki alla búa hér við góðan kost en það sé kerfið á Íslandi sem eigi að grípa fólk. Ef það sé einhver út undan þá þurfi að skoða það.

„En það getur ekki falið í sér að við ætlum að smyrja jafnt yfir alla,“ segir Ólafur.

Kristján Þórður segist í þessu birtast sú pólitíska forgangsröðun sem hafi verið viðhöfð síðustu ár. Það sé ekki verið að nýta auð samfélagsins á réttlátan hátt og því þurfi að breyta. Það þurfi að setja hagsmuni fólksins í forgang og skoða stöðu þeirra sem eru í sérstaklega erfiðri stöðu.

Sjálfstæðismenn vilji nýjar áherslur

Ólafur segir það ljóst að á síðasta kjörtímabili hafi það verið röng ákvörðun að ganga aftur til stjórnarsamstarfs við Vinstri græn og Framsóknarflokk. Forysta flokksins beri ábyrgð á því.

„Það væri skynsamlegt fyrir Alþingismenn að lofa minna,“ segir Ólafur.

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn skulda sínum kjósendum skýringar. Það sé verið að skipta út þingmönnum víða vegna þess að fólk vilji nýjar áherslur. Varðandi það að forysta flokksins, sem tók ákvörðun um að halda samstarfinu áfram, sé áfram í forystu segir hann ríkisstjórnina samt ekki hafa verið alslæma.

Ólafur og Kristján Þórður ræddu einnig skattkerfið, atvinnulífið, húsnæðismál og ýmis önnur mál í þættinum sem hægt er að hlusta á hér að ofan í heild sinni.


Tengdar fréttir

„Ekki góð þróun“ að flokkarnir drösli frægu fólki á listana

Skiptar skoðanir voru á svokallaðri „frægðarvæðingu“ í komandi Alþingiskosningum í Pallborðinu í gær. Þingmaður Samfylkingarinnar sýnir þróuninni skilning en fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir segir ekki góða þróun að stjórnmálaflokkur geti verið eins og hilluvara fyrir frægt fólk. 

Jakob og Tómas einu oddvitar Flokks fólksins sem detta út

Jakob Frímann verður ekki áfram oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi. Fyrr í dag kom í ljós að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tæki oddvitasæti í Reykjavík af Tómasi Tómassyni. Aðrir oddvitar halda sætum sínum að sögn varaformanns flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×