Handbolti

Ís­lenski hópurinn sem tekur fyrstu skrefin að EM 2026

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland hefur verið fastagestur á EM frá aldamótum og ekki útlit fyrir að það breytist í bili.
Ísland hefur verið fastagestur á EM frá aldamótum og ekki útlit fyrir að það breytist í bili. vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, hefur valið landsliðshópinn sem í næsta mánuði byrjar nýja undankeppni fyrir EM 2026.

Hópurinn er örlítið breyttur frá þeim hópi sem Snorri valdi fyrir HM í Þýskalandi í byrjun þessa árs. Orri Freyr Þorkelsson er í vinstra horninu í stað Stivens Valencia. Hægri skyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson og línumaðurinn Sveinn Jóhannsson eru einnig með en ekki þeir Arnar Freyr Arnarsson og Kristján Örn Kristjánsson. Orri og Þorsteinn voru í hópnum sem mætti Grikkjum í vináttuleikjum í mars.

Einhver óvissa er um þátttöku Janusar Daða Smárasonar en kona hans á von á barni en annars eru allir helstu lykilmenn landsliðsins með að þessu sinni. Snorri kvaðst á blaðamannafundi í dag vilja prófa eitthvað nýtt í línumannsstöðunni, og því kallað í Svein sem í sumar gekk í raðir Kolstad í Noregi.

Búið að velja leikstað fyrir Ísland á EM

Ísland hefur átt fast sæti á EM frá aldamótum og endaði í tíunda sæti á mótinu í Þýskalandi í byrjun þessa árs. Liðið byrjar undankeppni næsta EM á því að mæta Bosníu á heimavelli 6. nóvember, og Georgíu í Tbilisi sunnudaginn 10. nóvember.

Ísland hefur jafnframt tryggt sér sæti á HM sem fram fer í janúar næstkomandi, og ættu leikirnir í nóvember því einnig að nýtast sem undirbúningur áður en íslenska liðið heldur til Króatíu á það mót.

Handknattleikssamband Evrópu hefur þegar tilkynnt það að komist Ísland á EM 2026, sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, þá muni Ísland spila í riðli í Kristianstad í Svíþjóð, rétt eins og á HM 2023.

Íslenski hópurinn sem mætir Bosníu og Georgíu:

Markmenn: Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson.

Vinstri hornamenn: Bjarki Már Elísson og Orri Freyr Þorkelsson.

Hægri hornamenn: Óðinn Þór Ríkharðsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson.

Vinstri skyttur: Aron Pálmarsson, Elvar Örn Jónsson, Þorsteinn Leó Gunnarsson.

Hægri skyttur: Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson.

Miðjumenn: Gísli Þorgeir Kristjánsson, Haukur Þrastarson, Janus Daði Smárason.

Línu- og varnarmenn: Einar Þ. Ólafsson, Elliði Viðarsson, Sveinn Jóhannsson, Ýmir Örn Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×