Erlent

Segir Hezbollah hafa reynt að ráða sig af dögum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sakar Hezbollah um að hafa reynt að ráða sig af dögum.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sakar Hezbollah um að hafa reynt að ráða sig af dögum. AP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur sakað Hezbollah um að reyna að ráða sig af dögum í dag eftir að dróna frá Líbanon var skotið í átt að heimili hans í bænum Caesarea. Hvorki forsætisráðherrann né kona hans voru heima og sakaði engan.

Ísraelsk yfirvöld sögðu tugi loftskeyta hafa verið skotið frá Líbanon, degi eftir að Hezbollah lýsti yfir nýjum fasa í stríðinu við Ísrael. 

Skrifstofa Netanjahú sagði dróna hafa verið „skotið í átt“ að heimili hans í strandbænum Caeserea í norðurhluta Ísrael. Þá segir Ísraelsher að þremur drónum hafi verið skotið í átt að bænum, tveir þeirra hafi verið skotnir niður og einn þeirra hæft byggingu í bænum. 

Ekki kemur fram hvort það hafi verið heimili Netanjahú sem um ræðir eða hverjar skemmdirnar voru.

Hermenn á vettvangi eftir drónaárás í strandbænum Caesarea í norðurhluta Ísrael.Getty

„Við munum halda áfram að útrýma hryðjuverkamönnum“

Íranski fjölmiðillinn IRNA greindi frá því að hryðjuverkasamtökin Hezbollah standi að baki árásinni. Hezbollah, sem eru fjármögnuð og studd af Íran, hafa ekki tjáð sig um málið.

„Tilraun Hezbollah, staðgengils Írans, til að ráða mig og konu mína af dögum voru stór mistök,“ skrifaði Netanjahú í færslu á miðilinnn X (áður Twitter).

Þá sagði hann að árásin myndi hvorki stoppa hann né Ísraelsríki frá því að halda áfram stríðinu gegn óvinum þeirra. „Hver sá sem reynir að skaða íbúa Ísrael mun borga það dýrum dómi. Við munum halda áfram að útrýma hryðjuverkamönnum og þeim sem senda þá,“ skrifaði hann einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×