Íslenski boltinn

„Gæti verið minn síðasti leikur á laugar­daginn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað sinn síðasta leik á ferlinum næstu helgi.
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað sinn síðasta leik á ferlinum næstu helgi. vísir / anton brink

„Ég bara veit það ekki. Veit ekki hvað ég mun gera eftir tímabilið, þarf bara að setjast niður eftir næstu helgi og spá í því hvað mig langar að gera,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Vals og markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Lokaleikur tímabilsins gegn ÍA næstu helgi gæti orðið hans síðasti á ferlinum.

Gylfi lék allan leikinn í 1-1 jafntefli Vals og FH. Hann fékk tækifæri til að skora sigurmarkið af vítapunktinum undir blálokin, en klikkaði.

„Þetta var drullusvekkjandi, að fá á sig mark og klikka víti en kannski heilt yfir litið sanngjörn úrslit,“ sagði Gylfi eftir leik og viðurkenndi að hann vissi ekki hvenær hann klúðraði síðast víti, svo langt væri liðið.

Íhugar starfslok

Þá færðist talið að næsta leik gegn ÍA, sem gæti orðið síðasti leikur Gylfa.

Er það eitthvað sem þú ert að íhuga, að leggja skóna á hilluna?

„Já, það gæti alveg verið. Gæti verið síðasti leikurinn minn á laugardaginn.“

Er þetta eitthvað sem þú ert búinn að hugsa lengi.

„Já alveg í smástund. Ég hef ekki pælt mikið í þessu, hvað ég mun gera eða langar að gera. Kannski breytist það yfir veturinn. En svona eins og er, þá er það alveg opið.“

Fjölskyldan skiptir mestu máli

Gylfi eignaðist barn á dögunum og getur vel hugsað sér að eyða meiri tíma með fjölskyldunni.

„Auðvitað langar manni að eyða sem mestum tíma með krökkunum og fjölskyldunni, ég er í þannig stöðu að ég get eytt miklum tíma með þeim og það er það skemmtilegasta sem ég geri núna. Það breytist þegar maður eignast krakka, þá fellur fótboltinn niður töfluna. Þau skipta mig auðvitað mestu máli og ef ég skyldi hætta þá fæ ég meiri tíma með fjölskylduna,“ sagði Gylfi þungt hugsi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×