Handbolti

Slæmt gengi Mag­deburg í Evrópu heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir og Ómar Ingi áttu góðan leik sóknarlega í kvöld.
Gísli Þorgeir og Ómar Ingi áttu góðan leik sóknarlega í kvöld. Cathrin Mueller/Getty Images

Magdeburg tapaði óvænt fyrir Nantes í Meistaradeild karla í handbolta í kvöld, lokatölur í Þýskalandi 28-32. Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í liði heimamanna en það dugði ekki í kvöld.

Fyrir fram varef til vill búist við sigri heimamanna enda Magdeburg með betri liðum Evrópu síðustu ár. Þá höfðu liðin mæst sex sinnum fyrir leik kvöldsins og aldrei hafði Magdeburg tapað, það breyttist í kvöld. 

Gestirnir frá Frakklandi voru skrefi á undan nær allan fyrri hálfleikinn en á einhvern hátt tókst Magdeburg að leiða með einu marki í hálfleik, staðan þá 16-15.

Var það að mörgu leiti Ómar Inga og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni að þakka en þeir skoruðu eða lögðu upp fjögur síðustu mörk liðsins í fyrri hálfleik. Ómar Ingi skoraði svo tvö fyrstu mörk Magdeburg í seinni hálfleik en í stöðunni 18-17 skoruðu gestirnir fimm mörk í röð og skildi sá kafli liðin einfaldlega að í kvöld.

Magdeburg tókst ekki að vinna sig inn í leikinn að því loknu og á endanum unnu gestirnir fjögurra marka sigur, lokatölur 28-32. Aymeric Minne var markahæstur í liði Nantes og raunar markahæstur allra á vellinum með 9 mörk. Ofan á það gaf hann 3 stoðsendingar.

Ómar Ingi skoraði 7 mörk og gaf einnig 3 stoðsendingar á meðan Gísli Þorgeir skoraði 2 mörk og gaf 5 stoðsendingar.

Þýska stórveldið hefur byrjað tímabilið hrikalega í Meistaradeild Evrópu og sigur nú í 6. sæti síns riðils með aðeins 3 stig að loknum 5 leikjum. Nantes er í 2. sæti með 6 stig og barcelona á toppnum með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×