Bergþór Ólason formaður þingflokks Miðflokksins segir að fimm af sex kjördæmaráðum flokksins hafi ákveðið að stilla upp listum fyrir komandi Alþingiskosningar. Suðvesturkjördæmisráð eigi fund í dag og gert sé ráð fyrir að uppstilling verði einnig fyrir valinu þar.
Ekki sé komið á hreint í hvaða kjördæmum hann og formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætli að bjóða sig fram en í síðustu kosningum bauð formaðurinn sig fram í Norðausturkjördæmi og Bergþór í Norvesturkjördæmi.
„Nú er verið að manna listana og það eru margir sem hafa verið í sambandi við okkur og lýst yfir áhuga á að starfa með okkur. Uppstillinganefndir munu velja besta fólkið. Ástæðan fyrir þessu formi nú er hvað okkur er gefinn knappur tímarammi fyrir næstu kosningar. Listarnir verða birtir á næstu vikum,“ segir Bergþór.
Píratar ætla í prófkjör
Píratar hafa þegar gefið upp að þeir ætli í prófkjör í öllum kjördæmum. Björn Leví Gunnarsson þingmaður flokksins telur líklegt að prófkjörin fari fram í byrjun næstu viku.
Þá hefur stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi óskað eftir framboðum á lista í komandi alþingiskosningum. Val á framboðslista mun fara fram sunnudaginn 20. október í kjördæminu, líkt og boðað hefur verið í Norðvesturkjördæmi.