Körfubolti

Danny Green leggur skóna á hilluna

Siggeir Ævarsson skrifar
Tim Duncan og Danny Green unnu saman titilinn með San Antonio Spurs fyrir áratug
Tim Duncan og Danny Green unnu saman titilinn með San Antonio Spurs fyrir áratug Vísir/EPA

Bandaríski bakvörðurinn Danny Green tilkynnti í dag að skórnir væru komnir upp á hillu eftir langan og farsælan feril. Green, sem varð 37 ára í sumar, lék alls 14 tímabil í NBA-deildinni og varð þrisvar sinnum meistari.

Green hóf ferilinn með Cleveland Cavaliers haustið 2009 en lengst af lék hann með San Antonio Spurs og vann þar sinn fyrsta titil af þremur árið 2014. Þá varð hann einnig meistari með Toronto Raptors 2019 og með Los Angeles Lakers árið eftir. 

Hann er einn af aðeins fjórum leikmönnum í sögu deildarinnar sem hafa orðið meistarar með þremur mismunandi liðum. Á ferilinum lék hann alls með sex liðum en hann lék einnig fyrir Memphis Grizzlies og Philadelphia 76ers, en hann náði aðeins tveimur leikjum með 76ers á síðasta tímabili.

Hann meiddist illa á hné í úrslitakeppninni 2022 og hefur síðan þá aðeins tekið þátt í 13 leikjum. Hann sagði í hlaðvarpi á dögunum að eftir að hafa aðeins spilað tvo leiki í fyrra hafi engin lið haft samband og þá hafi runnið upp fyrir honum að ferilinn væri sennilega kominn á endastöð. Í sama þætti sagði hann einnig að hann vonaðist eftir að halda tengingu við körfuboltann með því að færa sig yfir í fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×