Skoðun

Sorrý, ekkert partý fyrir þig (þú ert svo mikið ves)

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar

Sum hafa ekki aðgengi að skrifstofu sveitarfélagsins eða einu versluninni í plássinu, né leikskólanum, hvað þá að störfum sem henta.

Við sem nýtum hjólastóla verðum fyrir ýmsum hindrunum í daglegu lífi. Hindrunum sem aðrir, og ég sjálf í fyrra lífi, tókum ekki eftir. Það að komast ekki í veislur, partý, íþróttaviðburði, leikhús eða annað varð allt í einu blákaldur veruleikinn.

Félagslegt aðgengi er mikilvægara hreyfihömluðu fólki eftir að það fær hjólastólinn heldur en áður. Útilokun, aðgreining og höfnun eru erfitt föruneyti þess sem nýtir hjálpartæki, en vandamálið er ekki þess hreyfihamlaða heldur samfélagsins; fyrirtækja sem ráða ekki hreyfihamlað fólk í vinnu vegna lágs fötlunarsjálfstraust, ráðuneyta þar sem hreyfihamlað fólk er skilið eftir þegar partý eru haldin, af því að partýstaðurinn er ekki aðgengilegur. Sama má segja um ferðamannastaði, hótel og viðburði svo sem þegar friðarsúlan er tendruð í Viðey, ekkert aðgengi. Svo eru það afmælisveislurnar þar sem öllum í bekknum er boðið en hreyfihamlaða barnið kemst ekki í. Að ekki sé minnst á Íþróttirnar og viðburðina sem hreyfihömluð börn og fullorðnir eru útilokuð frá vegna aðgengisleysis.

Sjálfsbjörg hefur í áratugi vakið athygli á og barist fyrir úrbótum í þessum málum og margt hefur áunnist. Aðgengi hefur stórlega batnað og má þakka það t.d. bættum Skipulags- og byggingalögum og byggingareglugerðum þar sem algild hönnun er viðmiðið.

En eitt er að lög taki tillit til hreyfihamlaðs fólks, annað er að samfélagið, fólkið í landinu, tileinki sér þann hugsunarhátt að gera ráð fyrir öllum. Að það sé í raun viðurkennt og þykja sjálfsögð réttindi að fatlað fólk hafi aðgengi að öllum sviðum samfélagsins. Í því felst ekki bara aðgengi að partýjum þó þau séu mikilvæg heldur líka aðgengi að menntun, atvinnu, menningu og stjórnsýslu svo eitthvað sé nefnt.

Undanfarin ár hefur, ítrekað verið bent á að hugsunarleysi þeirra sem hanna og byggja hindranir í samfélaginu, gera okkur sem nýtum hjálpartæki gríðarlegan óleik. Bara með hugsunarleysi sínu. Sama má segja um partý það sem umrætt hefur verið í fjölmiðlum og vinum mínum var boðið í en var ekki aðgengilegt. Þau tóku þá ákvörðun að í stað þess að sitja eftir með sára tilfinningu höfnunar, buðu þau í partýið heim til sín og þangað gátu allir starfsfélagar komið hvort sem þeir nýttu hjólastól eða ekki. Það má þó ekki vera þannig að best sé að sá sem nýtir hjálpartæki bjóði alltaf í partýið. Í viðhorfaveisluna er öllum boðið, en til þess að mæta í hana þarf fólk að vera rétt gírað og í stuði, líka veisluhaldararnir.

Látum nýliðinn atburð um viðhorf eða hugsunarleysi, eins og það er kallað, verða til þess að breyta leiknum, þannig að öll geti tekið þátt.

Höfundur er formaður Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×