Erlent

X snýr aftur í Brasilíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjarkskiptastofnun Brasilíu hefur verið falið að sjá til þess að íbúar landsins fái aftur aðgang að X.
Fjarkskiptastofnun Brasilíu hefur verið falið að sjá til þess að íbúar landsins fái aftur aðgang að X. AP/Eraldo Peres

Hæstiréttur Brasilíu hefur tilkynnt að núgildandi banni gegn X verði aflétt eftir að fyrirtækið samþykkti að greiða fimm milljónir dala í sekt og loka á ákveðna aðganga.

Forsvarsmenn X, áður Twitter, hafa einnig samþykkt að útnefna fulltrúa í landinu.

Samfélagsmiðillinn, sem er í eigu Elon Musk, var bannaður af dómstólnum eftir að forsvarsmenn hans neituðu að loka á ákveðna aðganga sem yfirvöld sökuðu um að dreifa falsupplýsingum í tengslum við forsetakosningarnar árið 2022.

Musk neitaði lengi að koma til móts við yfirvöld og sagði að lokum upp öllum starfsmönnum fyrirtækisins í Brasilíu. Hann sagði ákvörðunina hafa verið erfiða en að inngrip dómstóla væri aðför að tjáningarfrelsinu.

Áætlað er að um 22 milljónir manna í Brasilíu noti X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×