Erlent

Biden mun freista þess að leggja Netanyahu línurnar varðandi Íran

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden hefur afboðað komu sína til Berlín um helgina vegna fellibylsins Milton.
Biden hefur afboðað komu sína til Berlín um helgina vegna fellibylsins Milton. AP/Rod Lamkey Jr.

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun ræða við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í gegnum síma í dag um fyrirhugaðar árásir Ísrael á Íran.

Frá þessu greinir Axios.

Biden og Netanyahu hafa ekki rætt saman síðan í ágúst en Axios hefur eftir ónefndum bandarískum embættismanni að Biden muni freista þess að leggja línur og setja árásunum takmörk. Þær ættu að vera í hlutföllum við árás Írana á Ísrael á dögunum og ekki til þess fallnar að leiða til frekari stigmögnunar.

Reuters eftir eftir heimildarmönnum að leiðtogarnir muni einnig ræða aðgerðir Ísrael gegn Hamas á Gasa og Hezbollah í Líbanon. 

Varnarmálayfirvöld vestanhafs greindu frá því í gær að ekkert yrði af fyrirhugaðri heimsókn Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, til Washington í vikunni. 

Þá bárust fregnir af því að Biden myndi ekki sækja boðaðar viðræður Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands um Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum í Berlín um helgina. Er það vegna fellibylsins Milton sem mun ganga yfir Flórída undir lok vikunnar.

Yfirvöld í Líbanon segja 36 hafa látist og 150 særst í árásum Ísraelshers í gær. Þá eru sjö almennir borgarar sagðir hafa látist í árásum hersins á Damascus. Níu einstaklingar í sömu fjölskyldu eru sagðir hafa látist í árásum Ísrael í norðurhluta Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×