Handbolti

FH átti erfitt upp­dráttar án lykilleikmanna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birgir Már Birgisson spilaði vel og skoraði 4 mörk.
Birgir Már Birgisson spilaði vel og skoraði 4 mörk. vísir / pawel

Evrópudeild karla í handbolta er hafin. FH tapaði 37-30 ytra gegn franska félaginu Fenix Toulouse í fyrsta leik.

FH var án fyrirliðans Arons Pálmasonar, sem er frá vegna meiðsla, líkt og Ólafur Gústafsson sem ferðaðist heldur ekki út með liðinu. Ásbjörn Friðriksson og Ágúst Birgisson gengu þá ekki alveg heilir til skógar.

FH-ingar voru því án margra lykilmanna en byrjuðu leikinn þrátt fyrir það ágætlega og héldu heimaliðinu skammt frá sér í fyrri hálfleik, en voru alltaf að elta og eyddu mikilli orku.

Fljótlega í seinni hálfleik tóku heimamenn fjögurra marka forystu sem hélst lengi vel. Undir lokin, þegar sigurinn var ekki lengur í sjónmáli, lagði FH árar í bát og forystan stækkaði enn meira. Sjö marka tap varð niðurstaðan að endingu.

FH og Toulouse eru í H-riðli, ásamt þýska liðinu Gummersbach og sænska liðinu Savehof. Leik þeirra lauk 37-35 sigri heimaliðsins Gummersbach, sem var við völd lengst af í leiknum en gestirnir gerðu góða atlögu til að stela sigrinum undir lokin.

Línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson var markahæstur í sigurliðinu og setti 7 mörk úr 9 skotum. Teitur Örn Einarsson er einnig leikmaður Gummersbach en tók ekki þátt í leiknum.

Tókust á úti í horni

Einnig mættust Stiven Tobar Valencia, vinstri hornamaður Benfica í Portúgal, og Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður Kadetten Schaffhausen í Sviss.

Leikur liðanna var æsispennandi og lauk með eins marks sigri Benfica, 26-25.

Benfica byrjaði stórkostlega en heimamenn unnu sig inn í leikinn eftir því sem líða fór á. Um miðjan seinni hálfleik tókst þeim svo loks að jafna og síðustu fimmtán mínúturnar skiptust liðin á því að taka forystuna.

Svo fór að lokum að Benfica setti sigurmarkið þegar tuttugu sekúndur voru eftir, Kadetten brunaði upp en tókst ekki að jafna.

Óðinn Þór skoraði 6 mörk úr 9 skotum. Stiven Tobar skoraði eitt mark úr jafnmörgum skotum.

Valur hefur einnig leik í Evrópudeildinni í kvöld og mætir n-makedónska liðinu Vardar Skopje. Leikur þeirra hefst klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×