Íslenski boltinn

Vaknar Árbærinn aftur?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fylkismenn unnu 2-0 sigur í Kórnum fyrr í sumar.
Fylkismenn unnu 2-0 sigur í Kórnum fyrr í sumar. Vísir/Diego

Fylkir berst fyrir tilverurétti sínum í Bestu deild karla er liðið sækir HK heim í Kórinn seinni partinn í dag.

Fylkir vermir botnsæti deildarinnar, líkt og það hefur gert undanfarnar vikur. Liðið hefur ekki fagnað sigri síðan 18. ágúst og aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum.

Sigur Vestra á Fram í gær þýðir að Vestanmenn eru með 25 stig, ásamt KR, í neðstu sætunum fyrir ofan fallsvæðið á meðan Fylkir er með 17 stig á botninum.

Fylkir á aðeins þrjá leiki eftir óspilaða, við HK í Kórnum klukkan 17:00 í dag, við KR í Árbæ 20. október og á útivelli við Vestra í lokaumferðinni 26. ágúst. Níu stig eru í pottinum fyrir Árbæinga og átta stig upp í Vestra og KR.

Því er ljóst að allir þrír leikirnir þurfa að vinnast og þá þarf Fylkir enn fremur að treysta á að Vestri eða KR tapi öllum sínum leikjum til að eiga möguleika á að komast upp fyrir annað hvort þeirra.

Það veitir Fylkismönnum ef til vill einhverja von að síðasti sigur liðsins í deildinni kom einmitt gegn HK í Kórnum. Það var sterkur 2-0 sigur þar sem Árbæingar léku manni færri stóran hluta leiks.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, talaði um það eftir sigurinn í Kórnum að Árbærinn væri vaknaður. Síðan þá hafa frekar verið andvökumerki á þeim appelsínugulu síðan en spurning hvort þeir mæti vel úthvíldir til leiks og geti á ótrúlegan hátt haldið sér uppi í deild þeirra bestu.

HK þarf jafn mikið á þremur stigum að halda en þeir rauðklæddu úr Kópavogi eru með 21 stig í efra fallsætinu og þurfa því þrjú stig til að halda í við KR og Vestra.

Fylkir og HK mætast klukkan 17:00 í Kórnum og verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 BD. Leikurinn er einn fimm leikja sem fara fram í dag en allir verða þeir á Sportrásunum áður en þeir verða gerðir upp í Ísey tilþrifunum beint í kjölfar stórleiks Breiðabliks og Vals í kvöld.

  • Leikir dagsins í Bestu deild karla
  • Efri hluti:
  • 14:00 ÍA - FH (Stöð 2 Sport 5)
  • 17:00 Víkingur - Stjarnan (Stöð 2 Sport)
  • 19:15 Breiðablik - Valur (Stöð 2 Sport)
  • 21:20 Ísey tilþrifin (Stöð 2 Sport)


  • Neðri hluti:
  • 14:00 KA - KR (Stöð 2 Sport)
  • 17:00 HK - Fylkir (Stöð 2 BD)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×