Erlent

Gerðu á­rás á landa­mæra­stöð þar sem tugir þúsunda hafa flúið

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá einni af mörgum loftárásum Ísraela í Líbanon í morgun.
Frá einni af mörgum loftárásum Ísraela í Líbanon í morgun. AP/Baz Ratner

Ísraelar vörpuðu í morgun sprengjum á landamærastöð milli Líbanon og Sýrlands. Tugir þúsunda hafa flúið yfir landamærin þar á undanförnum dögum en yfirvöld í Líbanon segja um 1,2 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Sameinuðu þjóðirnar segja nánast öll neyðarskýli í Líbanon vera yfirfull og að ástandið í landinu sé „hörmulegt“.

Reuters hefur eftir háttsettum starfsmanni Sameinuðu þjóðanna í Líbanon að fjöldi þeirra sem hefur þurft að flýja heimili sín sé meiri og fjölgun þeirra hraðari en alvarlegustu sviðsmyndir SÞ hafi gert ráð fyrir. Þá sagði hann að Ísraelar væru að valda allt of miklum skaða á borgaralegum innviðum Líbanon, þar sem efnahagsástandið og stand innviða hefur verið slæmt um árabil.

Imran Riza sagði einnig að óttinn meðal líbönsku þjóðarinnar væri gífurlega mikill. Áföllin hefðu verið gífurleg.

Hann sagði 97 sjúkraflutninga- eða björgunarsveitarmenn hafa fallið í árásum Ísraela.

Gerðu einnig árásir á göng

Ísraelar héldu því fram í gær að landamærastöðin við Masnaa væri mikið notuð af vígamönnum Hezbollah til að flytja vopn frá Íran inn í Líbanon. Þessi vopn hafa lengi verið flutt í gegnum Sýrland, þar sem Íranar og Hezbollah-liðar eru mjög áhrifamiklir, og hafa Ísraelar um árabil gert loftárásir í Sýrlandi sem beinast hafa gegn þessum hergagnasendingum.

Í tilkynningu frá ísraelska hernum segir að einnig hafi verið gerðar árásir á 3,5 kílómetra löng göng sem lágu undir landamæri Líbanon og Sýrlands og að þau hafi einnig verið notuð til að flytja vopn frá Íran inn í landið. Vopnin eru sögð hafa verið flutt af hópi vígamanna sem stýrt var af Mohammed Jaafar Katzir, en hann mun hafa verið felldur í loftárás fyrr í þessari viku.

Aðrar landamærastöðvar milli Líbanon og Sýrlands eru enn opnar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Ísraelar gerðu umfangsmiklar árásir í Líbanon í gærkvöldi og eru þær sagðar hafa beinst að Hachem Safieddine, sem talið er að myndi taka við af Hassan Nasrallah, sem leiðtogi Hezbollah. Enn sem komið er er óljóst hvort hann hafi verið felldur eða ekki.

Sjá einnig: Arf­taki Nasrallah sagður drepinn í á­rás Ísraela

Þá sögðu Ísraelar frá því í morgun að Mohammed Skafi, leiðtogi samskiptadeildar Hezbollah, hefði verið felldur í loftárás í Beirút í gær. Hann hafi stýrt samskiptum samtakanna frá árinu 2000 og unnið náið með helstu leiðtogum þeirra.

Í enn einni yfirlýsingu sem ísraelski herinn birti í morgun segir að hermenn í sunnanverðu Líbanon hafi orðið varir við það að Hezbollah-liðar hafi yfirgefið varðstöðvar sínar og skilið vopn sín eftir. Þetta þykir til marks um dvínandi baráttuvilja vígamanna sökum þess hve marga leiðtoga samtakanna Ísraelar hafa fellt á undanförnum dögum, vikum og jafnvel mánuðum.

Talsmenn hersins segja að níu hermenn hafi fallið í átökum við Hezbollah-liða í gær en að rúmlega hundrað vígamenn hafi verið felldir.


Tengdar fréttir

Segja íbúum tuttugu og fimm þorpa að flýja

Ísraelski herinn sagði íbúum 25 bæja og þorpa í sunnanverðu Líbanon í dag að yfirgefa heimili sín. Byggðirnar eru norður af Litani-á en hún markar svæði sem átti að vera nokkurs konar hlífðarsvæði samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2006 og þykir yfirlýsingin til marks um mögulega útvíkkun innrásar Ísraela í Líbanon.

Íhuga árásir á olíuvinnslur og kjarnorkustöðvar í Íran

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að hann væri ekki hlynntur því að Ísraelar gerðu loftárásir á kjarnorkurannsóknarstöðvar í Íran. Ísraelar eru sagðir íhuga slíkar árásir eftir að íranski herinn skaut um tvö hundruð skotflaugum að Ísrael á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×