Fótbolti

„Það var hel­víti maður, Jesús kristur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Danijel Dejan Djuric (t.h.) var ósáttur við að skora ekki í fyrri hálfleiknum.
Danijel Dejan Djuric (t.h.) var ósáttur við að skora ekki í fyrri hálfleiknum. vísir / diego

„Manni líður ekki vel,“ segir Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, eftir 4-0 tap liðsins fyrir Omonoia í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur en mér fannst við inni í þessu í fyrri hálfleik en síðan í seinni hálfleik gerum við dýrkeypt mistök og þeir refsa vel,“ segir Danijel.

Klippa: Sauð á Danijel eftir leik

Víkingar fengu vissulega fín færi í fyrri hálfleik og var Danijel næst því Víkinga að skora þegar brasilískur markvörður andstæðingsins varði glæsilega frá honum. Hann hefði viljað sjá skallann syngja í netinu.

„Það var helvíti maður, jesús kristur. Ég hélt þessum stóra frá mér og hélt ég væri að fara að skora. Fæ skallann og já, þetta var góð varsla, en ég hefði átt að klára þetta,“ segir Danijel.

Tarik Ibrahimagic fór meiddur af velli í stöðunni 0-0 eftir óhugnanlegt höfuðhögg þar sem hann missti meðvitund. Danijel segir það þó ekki hafa haft áhrif á menn.

„Þetta var óhugnanlegt og við sáum að hann var með meðvitund. Það var gott, hann kom inn í hálfleik og spjallaði við okkur svo það tók ekkert á okkur,“ segir Danijel.

Dýrkeypt mistök og fullstórt tap

Víkingar misstu svo dampinn allhressilega á lokakafla leiksins og leikur sem hefði getað spilast öðruvísi hefðu menn nýtt færin tapaðist heldur stórt.-

„Við vorum inni í þessu í fyrri hálfleik en í seinni, það er ekki hægt að gefa svona liði svona mikið. Við þurfum alltaf að vera fókuseraðir, þótt við séum þreyttir þurfum við að þora að halda í boltann. Þetta var hausinn,“

„Mér fannst þetta ekki vera 4-0 leikur. Þeir voru betri já, en ekki 4-0. Það gefur lélega mynd af þessum leik. Bara dýrkeypt mistök,“ segir Danijel að endingu.

Viðtalið má sjá að ofan. Beðist er velvirðingar á því að spurningar heyrast ekki vegna tæknilegra örðugleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×