Á vef ráðuneytisins kemur fram að samningurinn er byggður á grundvelli markaðskönnunar sem Ríkiskaup framkvæmdu fyrir ráðuneytið í byrjun mánaðar. Almannarómur fór einnig fyrir framkvæmd Máltækniáætlunar 1, fyrir hönd ráðuneytisins á árunum 2019 til 2023.
Almannarómur mun þannig halda utan um framkvæmd Máltækniáætlunar 2 fyrir hönd ráðuneytisins og vinnur markvisst að því að tryggja að íslensk tunga verði gjaldgeng í öllum samskiptum sem byggja á tölvu- og upplýsingatækni.
Samningurinn er til þriggja ára og fylgir meðal annars eftir viðhaldi á þeim máltækniinnviðum sem smíðaðir voru undir fyrri máltækniáætlun stjórnvalda og hrint í framkvæmd með Máltækniáætlun 2. Þar að auki mun Almannarómur áfram vinna að kynningu á íslenskum máltæknilausnum fyrir almenning og atvinnulífið og stuðla að aukinni notkun þeirra.
„Það gleður mig mjög að búið sé að tryggja Almannarómi traustan rekstrargrundvöll til næstu ára svo að öll sú kraftmikla máltæknivinna sem hafin er geti haldið ótrauð áfram. Þessi vinna snýst ekki aðeins um að við getum notað helstu forrit og tækni á okkar eigin tungumáli, heldur erum við líka að byggja brú á milli kynslóða. Tungumálið okkar er gersemi sem hefur varðveist í 1000 ár og er nú hluti af þróunarvinnu stærstu tæknirisa heims sem skilar sér í að tækninýjungar verða aðgengilegar fleirum en þeim sem eru færir í ensku og varðveitir um leið tungumálið okkar og eykur orðaforða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í tilkynningu um málið.
Mikið hagsmunamál
Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður stjórnar Almannaróms, segir íslenska tungu ekki mega gleymast þó tækninni fleygi fram.
„Það er mikilsvert hagsmunamál fyrir almenning, stofnanir og fyrirtæki að íslenskan sé hluti af hverri tæknibyltingu, þannig að á íslensku megi áfram alltaf finna svar. Að öðrum kosti förum við á mis við þau tækifæri sem í tækniframförum felast og eigum um leið á hættu að glata móðurmálinu,“ segir Halldór Benjamín.
Í tilkynningu kemur enn fremur fram að önnur máltækniáætlun Íslands sé formlega komin í gagnið með samningnum. Á næstu vikum verður stórum verkþáttum í áætluninni komið í framkvæmd. Ráðuneytið og Almannarómur munu í kjölfarið semja við framkvæmdaaðila um ný innviðaverkefni fyrir íslenska máltækni auk þess sem nýir innleiðingar- og hagnýtingastyrkir í máltækni verða auglýstir von bráðar með það að markmiði að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að bjóða upp á tæknilega þjónustu sína á íslensku.
„Við tökum þessu stóra verkefni fagnandi. Framfarir á sviði máltækni síðastliðin ár hafa verið undraverðar og undirstrikað svo um munar mikilvægi þess íslenskunni sé haldið á lofti í heimi tækninnar. Tungumálið okkar er smátt og þess vegna gerist þetta ekki af sjálfu sér. Við þurfum að tryggja að íslenskan sé tilbúin fyrir tæknina og að tækni sem talar og skilur íslensku verði aðgengileg þeim sem vilja,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms.
Nýr leiðarvísir
Í tilkynningu stjórnarráðsins segir enn fremur að í síðustu viku hafi ráðuneytið, í samstarfi við gervigreindar- og máltæknifyrirtækið Miðeind og Almannaróm, gefið út leiðarvísi sem ber heitið Íslenska-nálgunin: Hvernig stuðla má að fjölbreytni tungumála og menningar á sviði gervigreindar.
Íslenska-nálgunin var kynnt tæknisamfélaginu á málþingi Open AI sem haldin var í tilefni af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Inntak málþingsins var að setja áherslu á að leysa flókin samfélagsvandamál með hjálp gervigreindar og stuðla þannig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Við erum að ná árangri og með þessum samningi tryggjum við áframhaldandi sókn fyrir tungumálið á stafrænum vettvangi. Almannarómur hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir íslensku þjóðina síðustu ár. Þetta hefur birtist meðal annars í samstarfi Íslands við OpenAI, um að gera íslenskuna aðgengilega í ChatGPT, sem stofnunin hefur tekið virkan þátt í auk alls þess árangurs sem hefur náðst í íslenskri máltækni,“ segir Lilja Dögg.