Sláturtíðin hófst í byrjun september og stendur yfir í átta vikur í sláturhúsi Sláturfélags Suðurlands á Selfossi. Þar er meira en nóg að gera alla daga og oft langir vinnudagar.
En hvernig líst framleiðslustjóra SS á skrokkana?
„Þeir allavega líta vel út núna í upphafi, þetta er bara vonandi það sem koma skal , það verði bara flottir og vænir skrokkar,” segir Benedikt Benediktsson.
Sláturtíðin er meira og minna skipuð erlendum starfsmönnum, sem koma sérstaklega til landsins til að vinna þessar átta vikur á meðan slátrunin stendur yfir.
„Fólkið kemur héðan og þaðan , flestir eru að koma frá Póllandi. Það er alltaf mikil stemming og allir hressir og fólki finnst gaman að hitta félagana og koma í fjörið í sláturtíð. Langflestir eru að koma ár eftir ár til okkar, við erum heppin að fá sama fólkið aftur og aftur,” bætir Benedikt við.
Og sláturhúsið er alltaf að tæknivæðast meira og meira.
Benedikt segir að vinsældir lambakjötsins séu alltaf miklar enda gangi vel að selja það.
Og er alltaf jafn skemmtilegt að vinna í sláturtíðinni?
„Já, já, þetta er bara stuð og stemming.”
En fyrir þá sem segja að þetta sé svo ógeðslegt, hvað segir þú við því ?
„Það er náttúrulega bara ef þú sérð eitthvað í fyrsta skipti þá finnst þér það kannski eitthvað öðruvísi en þetta er bara flott. Ég er mjög ánægður og finnst gaman að fylgjast með þessu,” segir Benedikt.
Og kjötmatsmaðurinn í sláturhúsinu er alsæll með lambskrokkana og gæði þeirra.
„Þetta er alltaf gaman, það er alltaf gaman að sjá hvernig lömb eru að koma undan sumri og maður sér oft mun á milli ára á milli landsvæða, það er bara gaman. Það er heilmikil stemming í sláturtíðinni,” segir Bjarki Freyr Sigurjónsson, kjötmatsmaður hjá SS.