Innlent

Nýjustu upp­lýsingar breyta ekki skoðun verk­stjórans

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Frá Bakkafirði þar sem 55 eru skráðir til heimilis samkvæmt Hagstofu Íslands.
Frá Bakkafirði þar sem 55 eru skráðir til heimilis samkvæmt Hagstofu Íslands. Vísir/Vilhelm

„Umrætt fólk hefur komið vel fram og stend ég enn þá á þeirri skoðun meðan rannsókn málsins á sér stað að þarna er um góða vini og öflugt starfsfólk að ræða.“

Þetta segir Þórir Örn Jónsson, verkstjóri á Bakkafirði og yfirmaður mannsins sem var handtekinn þar á bæ á mánudaginn, í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis. Í dag var greint frá því að pólska parið hafi verið handtekið grunað um fíkniefnaframleiðslu en karlmaðurinn er eftirlýstur í heimalandinu fyrir fjársvik. Fíkniefni og búnaður til framleiðslu fíkniefna fundust í bænum við aðgerðir sérsveitarinnar og lögreglu á mánudaginn.

Tengist honum ekki á neinn hátt

Þórir taldi ástæðu handtökunnar vera að bilað skotvopn í hans eigu var í húsnæði parsins. Byssa Þóris hafi verið í húsinu því að hann hafi beðið pólska karlmanninn um að gera við hana fyrir sig.

Spurður hvort að það komi honum á óvart að búnaðurinn og fíkniefni hafi fundist í bænum segir Þórir:

„Ég ætla ekki að tjá mig neitt um málin hvað varðar fíkniefni, enda tengist það ekki mér á neinn hátt. Skotvopnið sem fannst í húsinu er skotvopnið mitt og var mjög saklaus skýring á því eins og tekið var fram. Bað nágrannann sem er þekktur fyrir að vera handlaginn um aðstoð við að koma fastri byssu í sundur.“

„Stend enn þá á þeirri skoðun“

Þórir hefur búið í þorpinu ásamt fjölskyldu sinni í fimm ár en hyggst nú flytja úr þorpinu til að flýja neikvæðni og eitraða slúðurmenningu. Í gær lýsti Þórir óánægju sinni vegna vinnubragða sérsveitarinnar en honum blöskraði vegna þessa. Hann sagði sérsveitarmennina dónalega og leiðinlega.

Spurður hvort að skoðun hans á vinnubrögðum sérsveitarinnar hafi breyst vegna þeirra upplýsinga sem komu fram í dag svarar Þórir því neitandi.

„Ég kom mínum skoðunum á framfæri í grein sem var birt í gær. Fjölmiðlar höfðu samband við mig og svaraði ég þeirra spurningum eftir bestu getu, og lýsti óánægju minni á verklagi sérsveitarinnar og stend enn þá á þeirri skoðun.“

Hann segir að lokum að nú sé best að leyfa lögreglunni að sinna sínu starfi og segist ekki vilja tjá sig frekar um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×