Tíu sinnum fleiri fyrirbæri eru á þessu nýja korti en voru á fyrri útgáfu sem sami hópur birti árið 2013. Til verksins notuðu vísindamennirnir innrauða myndavél VISTA-sjónauka evrópska stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO) í Atacama-eyðimörkinni í Síle.
Í innrauðu ljósi gat sjónaukinn skyggnst í gegnum ryk og gas og komið auga á nýfæddar stjörnur og kúluþyrpingar. Hann gat einnig greint dauf fyrirbæri eins og brúna dverga og frjálsar reikistjörnur sem ganga ekki á braut um sólstjörnur, að því er kemur fram í tilkynningu frá ESO.
Athuganirnar voru gerðar á 420 nóttum yfir þrettán ára tímabil, frá 2010 til fyrri hluta síðasta árs. Þetta er stærsta verkefni sem ráðist hefur verið í með sjónauka ESO.
Með því að fylgjast með sama hluta næturhiminsins lengi í einu gátu stjarnfræðingarnir staðsett fyrirbæri en einnig fylgst með hreyfingum þeirra og breytingum á birtu þeirra. Lotubundnar birtubreytingar ákveðinna stjarna gerðu þeim svo kleift að mæla fjarlægðir og skapa þrívíddarkort af innri hluta Vetrarbrautarinnar sem er hulinn ryki frá jörðinni séð.
Fleiri en þrjú hundruð vísindagreinar hafa orðið til upp úr athugununum og búast má við því að þær verði mun fleiri eftir því sem vísindamenn plægja í gegnum gögnin sem telja um 500 terabæti.
„Við gerðum svo margar uppgötvanir. Við höfum breytt sýn okkar á Vetrarbrautina til frambúðar,“ segir Dante Minniti, stjarneðlisfræðingur við Andrés Bello-háskóla í Síle sem stýrði verkefninu, í tilkynningu frá ESO.