Íslenski boltinn

Hafi rætt við Rúnar og Börk og allir jafn undrandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Kristinsson var þjálfari erkifjenda Vals í KR um árabil en tók við Fram fyrir yfirstandandi leiktíð.
Rúnar Kristinsson var þjálfari erkifjenda Vals í KR um árabil en tók við Fram fyrir yfirstandandi leiktíð. Vísir / Hulda Margrét

Formaður knattspyrnudeildar Fram furðar sig á sögusögnum þess efnis að Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs félagsins, hafi átt viðræður um að taka við liði Vals. Hann hafi rætt við kollega sinn hjá Val sem og Rúnar sjálfan og ekkert sé til sögum þess efnis.

Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar á Stöð 2 Sport og stjórnandi Gula spjaldsins, sagði í hlaðvarpinu í gær að Valsmenn hafi sett sig í samband við Rúnar um að taka við Hlíðarendafélaginu fyrir næstu leiktíð.

Guðmundur Benediktsson, stjórnandi Stúkunnar, sagði svipaða sögu í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leik Breiðabliks og ÍA í gærkvöld. Guðmundur kvaðst hafa rætt við Börk Edvardsson, formann knattspyrnudeildar Vals, vegna málsins.

„Hann neitaði því að það hefðu átt sér stað einhver samskipti þar á milli. Það væri ekki í plönunum,“ sagði Gummi Ben af samskiptum sínum við Börk.

Fótbolti.net hafði samband við Guðmund Torfason, formann knattspyrnudeildar Fram, vegna málsins. Guðmundur furðaði sig á orðrómunum.

„Það er enginn fótur fyrir þessu,“ hefur Fótbolti.net eftir Guðmundi. Jafnframt segir í frétt miðilsins að Guðmundur hafi rætt við bæði áðurnefndan Börk sem og Rúnar vegna málsins og allir séu þeir jafn undrandi á þessu öllu saman.

Srdjan Tufegdzic er þjálfari Vals en hann tók við af Arnari Grétarssyni á miðju sumri. Hann skrifaði þá undir þriggja ára samning við Val.

Valur gerði 2-2 jafntefli við Stjörnuna í gær þar sem liðið lenti 2-0 undir. Valsmenn sitja í 3. sæti Bestu deildarinnar, sem veitir keppnisrétt í Sambandsdeild Evrópu að ári.

Fram vann 2-0 sigur á botnliði Fylkis í fyrrakvöld og er efst í neðri hluta Bestu deildarinnar. Gengi Fram var fram úr vonum framan af sumri og stefndi lengi vel í að liðið myndi enda í efri hlutanum, en það gaf hressilega á bátinn á lokakafla hefðbundu deildarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×