Þegar í ljós kom að Marseille væri við það að festa kaup á framherjanum umdeilda birtist viðtal við borgarstjóra Marseille-borgar sem sagðist ekki vilja sjá hinn 22 ára Greenwood. Hann kom þó á endanum og segir forseti félagsins, Pablo Longoria, ekki sjá eftir neinu.
Máli leikmannsins var vísað frá í febrúar 2023 en hann lék þó aldrei aftur fyrir Man United. Á síðustu leiktíð var hann á láni hjá Getafe á Spáni og færði hann sig yfir til Frakklands. Longoria segir að félagið hafi farið yfir upplýsingar málsins til hins ítrasta áður en kaupin voru staðfest.
Í viðtali sem birtist á vef breska ríkisútvarpsins segir Longoria að það hafi ekki tekið langan tíma að sannfæra Roberto De Zerbi, þjálfara liðsins, þar sem hann vissi hversu mikill gæðaleikmaður Greenwood væri síðan hann þjálfaði á Englandi.
Marseille er með sjö stig líkt og Nantes, Lens og Monaco þegar þrjár umferðir eru búnar af frönsku úrvalsdeildinni. París Saint-Germain er svo á toppnum með fullt hús stiga.