Körfubolti

Frá­kasta­drottningin spilar ekki meira á þessari leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Angel Reese er frá út leiktíðina.
Angel Reese er frá út leiktíðina. Michael Hickey/Getty Images

Nýliðinn og frákastadrottningin Angel Reese, leikmaður Chicago Sky, spilar ekki meira í WNBA-deildinni í körfubolta á þessari leiktíð eftir meiðsli á úlnlið. Frá þessu greindi hún á samfélagsmiðlum sínum.

Reese hefur ásamt Caitlin Clark verið ein helsta ástæða þess að áhugi á WNBA-deildinni hefur sjaldan verið meiri. Þær elduðu grátt silfur saman í háskólaboltanum og vöktu þar mikla athygli. 

Sú athygli elti þær inn í WNBA-deildina og voru báðar valdar í Stjörnuleik deildarinnar, svo öflugar hafa þær verið á sinni fyrstu leiktíð. Nú er ljóst að Reese spilar ekki meira að sinni eftir að hafa meiðst á úlnlið.

„Þvílíkt ár. Ég hefði aldrei ímyndað mér að síðasta karfan mín á nýliðatímabili mínu yrði þristur en kannski var þetta guð að sýna þeim við hverju þau mega búast á öðru ári,“ sagði Reese í upphafi færslu sinnar.

Hún sagðist jafnframt vera uppfull af tilfinningum vegna meiðslanna en að sama skapi mjög þakklát. Nú geti hún loks tekið sér smá pásu, andlega og líkamlega.

Reese var sjöunda í nýliðavali deildarinnar fyrir tímabilið en hún kom úr meistaraliði LSU. Alls náði hún 26 tvöföldum tvennum á sínu fyrsta tímabili í deildinni, þar af 15 í röð.

Hún endar tímabilið með 13,6 stig í leik og 13,1 frákast, sem er mest allra. Hún varð fyrsti leikmaður í sögu deildarinnar til að ná 20 fráköstum eða meira í einum og sama leiknum. Það gerði hún þrjá leiki í röð. Alls tók hún 446 fráköst í 34 leikjum, sem er það mesta í sögu deildarinnar.

Reese vakti einnig athygli utan vallar þar sem hún mætti með rapparanum Megan Thee Stallion á Met Gala-viðburðinn og var í tónlistarmyndbandi hjá rapparanum Cardi B.

„Í gengum þetta allt hef ég sýnt að ég á heima í þessari deild þó engin hafi haft trú á mér,“ segir Reese að lokum og lofar að hún muni halda áfram á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×