Sport

Ís­lands­met hjá Sonju sem hafnaði í sjöunda sæti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sonja Sigurðardóttir stóð sig frábærlega í París í dag.
Sonja Sigurðardóttir stóð sig frábærlega í París í dag. mynd/ÍF

Sonja Sigurðardóttir setti glæsilegt Íslandsmet í úrslitum í 50 metra baksundi á Ólympíumóti fatlaðra nú síðdegis.

Undirbúningurinn hjá Sonju var ekki eins og best verður á kosið. Hún nældi sér í flensu við komuna til Parísar og missti þar af leiðandi af setningarathöfninni þar sem hún átti að vera fánaberi.

Hún lét það ekki á sig fá og mætti vösk í laugina í morgun í undanrásunum. Þar synti hún á einni mínútu, 10,65 sekúndum. Sá tími dugði henni í áttunda og síðasta sætið í úrslitunum.

Sonja mætti gríðarlega vel stemmd í úrslitasundið. Hún synti jafnt og þétt allt sundið og stórbætti tímann sinn frá því í morgun. Hún kom í mark í sjöunda sæti á einni mínútu, 7,46 sekúndum og bætti tímann sinn frá því í morgun um heilar þrjár sekúndur. Það sem meira er þá sló hún Íslandsmetið í sundinu. Glæsilega gert hjá okkar konu.

Það var aftur á móti Ellie Challies frá Bretlandi sem vann sundið með miklum yfirburðum en hún kom í mark á 53,56 sekúndum.

Þáttöku Sonju á leikunum er ekki lokið en hún keppir í 100 metra skriðsundi í fyrramálið. Undanriðill hennar hefst rétt fyrir klukkan níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×