Íslenski boltinn

„Mér fannst vanta hug­rekki í okkur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, á hliðarlínunni í dag, pollrólegur að vanda
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, á hliðarlínunni í dag, pollrólegur að vanda Vísir/Pawel

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var ósáttur með frammistöðu sinna manna í 0-0 jafnteflinu gegn Fylki á Ísafirði í dag. Hann sagði að hans menn þyrftu að bera meiri virðingu fyrir boltanum.

„Gríðarlega svekktur. Mér fannst frammistaðan í dag ekki verðskulda neitt nema kannski stig,“ sagði Davíð Smári í viðtali strax eftir leik.

„Við fengum einhverjar 12-13 hornspyrnur sem við nýttum ekki. Við getum svo sem aðeins afsakað okkur með vindinn, erfitt að stjórna boltanum í þessum leik í dag. Mér fannst við ragir að halda í botlann og spila boltanum og fannst við geta gert töluvert betur úr þeim stöðum sem við fengum. Því miður áttum við ekki góðan leik í dag,“ bætti Davíð Smári við en leikurinn í dag var fremur tíðindalítill og varfærnin allsráðandi enda dýrt að tapa fallbaráttuslag sem þessum.

„Ég held að í hausnum á mönnum sé það þannig að hvorugt liðið vill tapa leiknum. Auðvitað hefur það áhrif.  Ég man ekki eftir að markmenn hafi þurft að verja bolta hér í dag,“ sagði Davíð Smári aðspurður hvort mikilvægi leiksins hafi haft áhrif á leikmenn.

„Auðvitað fengum við einhverjar góðar stöður og hættulegri færi en Fylkismenn, ég man varla eftir hættulegu færi hjá þeim í dag. Ég er ekki ánægður með leikinn og fannst við geta gert töluvert betur. Algjör synd að nýta ekki þessar hornspyrnur sem við fengum í dag. Ég er bara svekktur.“

Framundan er tveggja vikna hlé á Bestu deildinni vegna landsleikja. Davíð Smári sagðist spenntur fyrir framhaldinu.

„Auðvitað leggst þetta vel í mann, maður þarf aðeins að jafna sig á þessum leik áður en maður setur upp brosið og góða skapið. Við þurfum að nýta betur færin í leikjunum og fara betur með þau. Við þurfum að vanda okkur betur á boltanum og bera virðingu fyrir boltanum.“

„Vera hugrakkir, mér fannst vanta hugrekki í okkur. Við reynum að gera sóknarbreytingar í lokin og fannst það setja smá stress í Fylkismenn. Mér fannst við ekki nýta okkur það og ég er gríðarlega vonsvikinn. Við ætluðum okkur sigur hér í dag og það gekk ekki eftir,“ sagði Davíð Smári að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×