Íslenski boltinn

Gæti orðið tvö­faldur meistari með sitt hvoru liðinu: „Ekki spurning að ég er með það mark­mið í huga“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Blikakonur fagna einu af mörkum Samönthu.
Blikakonur fagna einu af mörkum Samönthu. Vísir / Anton Brink

„Ég elska að spila með þessum stelpum, við hjálpum hvor annarri og það fór aldeilis vel í dag,“ sagði Samantha Smith, sem gekk á dögunum til liðs við Breiðablik, eftir 4-0 sigur gegn Víkingi þar sem hún skoraði tvö og lagði upp eitt mark. 

Þetta var fyrsti leikurinn í efri hluta úrslitakeppni Bestu deildarinnar. Breiðablik situr í efsta sæti deildarinnar eftir úrslit kvöldsins, með tveggja stiga forskot á Val sem gerði jafntefli við Þrótt.

Samantha var fengin til félagsins á lokadegi félagaskiptagluggans til að fylla upp í skorður sem þjálfarinn fann í framlínunni. Hún kom frá Lengjudeildarliðinu FHL og hefur heldur betur staðist væntingar og komið með kraft inn í liðið.

„Þetta hafa verið auðveld skipti því þessar stelpur eru ótrúlega almennilegar og hafa tekið mér opnum örmum. Það hefur reynst mér aðeins erfitt, eða ég hef þurft að venjast, hærra getustigi deildarinnar. En þetta er bara fullkominn hópur til að spila með þannig að ég er ótrúlega ánægð að hafa skipt yfir.“

Í dag skoraði hún tvö mörk og lagði eitt upp.

„Ég geri mitt besta alla daga við að læra að spila í þessu leikkerfi og með þessum stelpum. Það hefur gengið vel og við erum að spila frábæran fótbolta núna undir lok tímabilsins, þannig að ég er spennt fyrir framhaldinu.“

Framhaldið gæti falið í sér að Samantha verði tvöfaldur meistari með sitt hvoru liðinu. FHL er í efsta sæti Lengjudeildarinnar og Breiðablik í efsta sæti Bestu deildarinnar.

„Það er draumurinn, en við tökum bara einn leik í einu og sjáum hvernig það fer. En ekki spurning að ég er með það markmið í huga. Stelpurnar voru einmitt að tala um það [að Valur hefði tapað stigum og Breiðablik væri efst], við erum mjög spenntar en þurfum að halda áfram og vinna okkar leiki. En þetta er stórt og gefur okkur mikið sjálfstraust fyrir framhaldið,“ sagði Samantha að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×