Innlent

Gengst við rúm­lega sjö­tíu ára glæp

Heimir Már Pétursson skrifar
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur upplýsir þátt sinn í gjörningi sem Morgunblaðið kallaði "svívirðingu gegn Þjóðsöngnum" árið 1953.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur upplýsir þátt sinn í gjörningi sem Morgunblaðið kallaði "svívirðingu gegn Þjóðsöngnum" árið 1953. Stöð 2/Arnar

Hinn 18. febrúar 1953 upplýsti Morgunblaðið að útsendarar alþjóðlegra kommúnista hefðu framið glæp í skjóli nætur og svívirt íslenska þjóðsönginn. Afbrotamennirnir fundust aldrei en nú rúmum sjötíu árum síðar gengur einn þeirra fram fyrir skjöldu og játar þátt sinn í málinu. Heimir Már gekk á fund hins meinta útsendara Stalíns.

Frétt Morgunblaðsins 18. febrúar 1953tímarit.is

Það var á heitavatnstönkunum í Öskjuhlíð sem hinn pólitíski glæpur var framinn. Eða eigum við að segja hinn pólitíski gjörningur, þegar menn í skjóli nætur í febrúarmánuði 1953 máluðu með risastóru letri á tankana "Ó $ vors lands." Og það stóð ekki á samsæriskenningum í Morgunblaðinu.

„Og þar var útlistað að kommúnistar hefðu svívirt Þjóðsönginn í nótt. Síðan var löng útlistun í fréttinni um hvernig skipanirnar hefðu komið beint frá Moskvu til þjóðarinnar á Þórsgötu 1 þar sem Sósíalistaflokkurinn hafði skrifstofur þá,“ segir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur sem nú er orðinn 92 ára gamall. Hann var einn af meintum útsendara Stalíns á Íslandi.

Á þessum tíma var Árni á lokaári í Menntaskólanum í Reykjavík ásamt vini sínum Jökli Jakobssyni sem síðar varð eitt dáðast leikskáld þjóðarinnar. Hann segir Jökul hafa verið uppátækjasaman og skólafélagarnir ekki alltaf til í að fylgja honum en nokkrir látið til leiðast í þetta skipti.

Árni Björnsson segir alla skýrt hugsandi menn hafa gert sér grein fyrir að rússagrílan var bara yfirvarp fyrir komu hersins til landsins.Stöð 2/Arnar

„Og hann átti hugmyndina. Hann framdi líka gjörninginn. Tjargaði þessa stafi á hitaveitugeymana. En við hinir gerðum ekki annað í rauninni en að bera tjöru og kústa upp Öskjuhlíðina og síðan að standa á verði. Þetta var um miðja nótt.“

Já, Morgunblaðið var ekki í nokkrum vafa um „að einhverjir af fyrirliðum kommúnista hafi skipað að minnsta kosti tveimur vikapilta sinna að fara í skjóli nætur og myrkurs upp að geymunum.“ ....„Þið eigið að svívirða Þjóðsönginn, hafa hinir kommúnísku fyrirliðar sagt við hlaupadrengi sína," sagði Mogginn.

„Það kom okkur ekki beinlínis á óvart. Því til þess var leikurinn auðvitað gerður, að þetta vekti athygli. Þetta birtist ekki bara í Morgunblaðinu. Það birtist líka mynd af þessu í Vísi.“ Tilefni tiltæksins hafi verið var að bandarískir dátar væru aftur orðnir áberandi á götum Reykjavíkur eftir um sjö ára hlé.

„Þeir spókuðu sig og þóttu nokkuð góðir með sig. Þetta fór í taugarnar á mörgum. Ég man að Jökull hreytti stundum í þá: Hey look at me. Flestir skýrt hugsandi menn áttuðu sig á því að hættan af Rússum var lítið annað en yfirvarp. Það voru íslenskir athafnamenn sem vildu fá verkefni fyrir herinn. Alveg eins og verið hafði á stríðsárunum.“

Félagarnir Jökull Jakobsson (t.v.) og Árni Björnsson (t.h.) á góðri stundu á menntaskólaárunum snemma á sjötta áratugnum.Árni Björnsson

Ungu mennirnir hafi viljað gera grín að veru hersins á Íslandi.

„Þetta voru auðvitað líka gamanmál en öllu gamni fylgir nokkur alvara,“ segir hinn 92 ára gamli meinti tilræðismaður við Þjóðsöng Íslendinga og góða siði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×