Íslenski boltinn

„Krakkar“ með blys, dós kastað að dómara og grannar sakaðir um í­kveikju

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn fótboltaliða haga sér misvel á leikjum. Myndin tengist fréttinni óbeint.
Stuðningsmenn fótboltaliða haga sér misvel á leikjum. Myndin tengist fréttinni óbeint. vísir/Anton

ÍBV, ÍR, Þór Akureyri, KFA og Vængir Júpiters hafa öll verið sektuð af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ í sumar vegna hegðunar áhorfenda. Brotin eru misalvarleg en hæsta sektin nam 100.000 krónum.

Þessar sektir bætast við sekt sem að Afturelding fékk vegna dólgslegrar framkomu stjórnarmanns félagsins í garð dómara eftir leik.

Knattspyrnudeild ÍR hefur í tvígang verið sektuð vegna framkomu áhorfenda í sumar. Í júní kveiktu stuðningsmenn liðsins á blysum á leik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi, sem leiddi til 50.000 króna sektar. Reykur frá blysunum olli nokkrum óþægindum fyrir áhorfendur, samkvæmt skýrslu eftirlitsmanns KSÍ.

Sögðu nýja stuðningssveit skipaða krökkum

Stjórn knattspyrnudeildar ÍR sagði nýja stuðningsmannasveit hafa verið stofnaða fyrir þetta tímabil og að hún samanstæði af „krökkum“ sem væru nær allir undir tvítugu. Reynt yrði að leiðbeina þeim og sjá til þess að þeir tækju tillit til reglna og annarra áhorfenda.

Með því að kveikja á blysum hætta áhorfendur á að félögin þeirra þurfi að greiða sektir. Vandamálið er þekkt um alla Evrópu.Getty/Rene Nijhuis

Í ágúst varð hegðun stuðningsmanna ÍR aftur tilefni til sektar, og í þetta sinn hljóðað hún upp á 100.000 krónur. Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanns lét hluti stuðningsmanna ÍR illa gagnvart dómara og gestum sínum úr Þrótti, og sérstaklega einn stuðningsmaður sem meðal annars kastaði krumpaðri áldós í átt að aðstoðardómara.

Vítaverð eða hættuleg framkoma gagnvart dómurum, leikmönnum eða öðrum getur valdið sekt upp á allt að 200.000 krónum. ÍR þurfti í þetta sinn að greiða helming þeirrar upphæðar en samtals hafa áhorfendur kostað knattspyrnudeild félagsins 150.000 krónur í sumar.

Á meðan hefur gengið innan vallar verið framar vonum en sem nýliðar eru ÍR-ingar í 5. sæti Lengjudeildar karla, í harðri baráttu um að komast í umspil um sæti í Bestu deildinni.

Sökuðu granna sína um að kveikja í gervigrasi með blysi

Grafarvogsfélagið Vængir Júpiters, sem spilar í 3. deild, fékk 75.000 króna sekt eftir heimaleik við Víði úr Garði. Framkoma eins áhorfanda þótti það vítaverð og hættuleg að réttast væri að sekta félagið, en einnig vegna þess að nauðsynleg öryggisgæsla var ekki til staðar.

Eftir grannaslag KFA og Hattar/Hugins fyrir austan, þann 13. júní, var knattspyrnudeild KFA sektuð um 50.000 krónur, vegna þess að stuðningsmenn KFA kveiktu á blysum á leiknum.

Í greinargerð Hattar/Hugins segir að meðal annars hafi blysi verið hent inn á nýtt gervigras Fellavallar þannig að það brann, og að gæslumaður sem reynt hafi að stoppa blysnotkun hafi eingöngu fengið skammir og læti, og endað á að detta úr stúkunni með hnakkann í jörðina. „Ætla ekki að segja að honum hafi verið ýtt, en það kom þarna maður aðvífandi sem stuggaði við honum þannig að hann missti fótanna aftur fyrir sig,“ segir í greinargerð Hattar/Hugins. Samkvæmt úrskurði aganefndar þótti þó aðeins sannað að áhorfendur hefðu gerst brotlegir með því að kveikja á blysum.

Með gjallarhorn, leiðindi og dónaskap

ÍBV fékk einnig sekt upp á 50.000 krónur vegna blysanotkunar stuðningsmanna, á útileik gegn Fjölni í Lengjudeild karla 9. ágúst. Eftir 5-1 risasigur Eyjamanna í toppslagnum kveiktu nokkrir stuðningsmenn á blysum og mátti meðal annars sjá það á myndum á Fótbolta.net.

Loks fengu Þórsarar lægstu sektina eða 25.000 króna sekt, vegna framkomu áhorfenda í leik gegn Stjörnunni í Mjólkurbikar karla. Í skýrslu eftirlitsmanns segir að framkoma stuðningsmanna Þórs, sem notuðu gjallarhorn, hafi ekki verið góð. Þeir hafi viðhaft leiðinlegt og dónalegt orðbragð í garð dómara og þjálfara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×