Viðskipti innlent

Kaupa allt hluta­fé í Promennt

Atli Ísleifsson skrifar
Promennt er til húsa í Skeifunni.
Promennt er til húsa í Skeifunni. Promennt

Félagið Grenihæð ehf. hefur keypt allt hlutafé í Promennt ehf. en fyrir á félagið allt hlutafé í NTV skólanum.

Í tilkynningu segir að bæði fræðslufyrirtækin sérhæfi sig í starfsmiðuðu námi, endurmenntun og í fræðslulausnum fyrir fyrirtæki.

„Með kaupunum er stefnt að því að auka við núverandi framboð á starfsmiðuðu námi og námskeiðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt því að samþætta námsleiðir sem nú þegar eru í boði. Promennt og NTV skólinn munu starfa áfram í sitt hvoru lagi og framkvæmdastjórar verða áfram þeir sömu.

Stærsta sérstaða beggja skólanna er diplómanám fyrir fullorðna sem skapar starfstækifæri á nýjum vettvangi á aðeins 6 til 18 mánuðum. Báðir skólarnir hafa starfað í fullorðinsfræðslu í um og yfir aldarfjórðung. Námsframboð þeirra og þjónusta er svipuð á mörgum sviðum en ólík á öðrum. Promennt hefur í gegnum tíðina haft ákveðna sérstöðu í tækninámskeiðum, sem alhliða prófamiðstöð og verið eina vottaða Microsoft fræðslufyrirtæki landsins. NTV skólinn hefur einblínt meira á prófa- og frammistöðudrifnar námsbrautir og er eini einkarekni skólinn á Íslandi sem býður upp á hagnýtt nám í forritun og á sviði gagnatækni og gagnagreiningar.

Saman bjóða skólarnir upp á námsleiðir sem spanna allt frá hönnun til tækni yfir í rekstur, stjórnun og sérfræðinám. Báðir skólarnir starfa eftir EQM gæðastaðli og eru viðurkenndir fræðsluaðilar af Menntamálastofnun í samstarfi við flesta fræðslu- og símenntunaraðila á Íslandi í fullorðinsfræðslu.

Fyrr á árinu stofnuðu Promennt og NTV skólinn saman Prófamiðstöð Íslands ehf. sem meðal annars mun annast framkvæmd prófa til viðurkennds bókara.

Promennt var stofnað árið 2000 og er til húsa að Skeifunni 11 og NTV skólinn árið 1996 og er til húsa að Hlíðasmára 9 Kópavogi. Heildarfjöldi nemenda sem sækja nám og námsleiðir i báðum skólunum er á milli eitt til tvö þúsund á ári,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×