Sport

Hrapaði til bana þegar hún var að taka sjálfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Natalie Stichová varð aðeins 23 ára gömul eftir slys í nágrenni Neuschwanstein kastalans.
Natalie Stichová varð aðeins 23 ára gömul eftir slys í nágrenni Neuschwanstein kastalans. @Natalie Stichová

Tékkneska fimleikakonan Natalie Stichová lést eftir hræðilegt slys við einn frægasta kastalann í Bæjaralandi í Þýskalandi.

Hin 23 ára gamla Stichová var stödd við Neuschwanstein kastalann. Kastalinn er talinn vera fyrirmyndin af Disney kastalanum og er vinsæll ferðamannastaður í Suður-Þýskalandi.

Slysið varð þegar Stichová féll áttatíu metra þegar hún var að taka af sér sjálfu og reyndi að hafa kastalann í bakgrunninum.

Vinur Natalie lýsti atvikinu í tékkneskum fjölmiðlum. Hann sagði að hún hafi verið allt of nálægt brúninni þegar hún rann til og féll fram af klettinum.

„Við munum aldrei komast að því hvort hún rann þarna eða hvort að hluti af bjarginu brotnaði undan henni,“ sagði vinurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

David, kærasti hennar, var með í för ásamt tveimur öðrum vinum. Þýska lögreglan segir að gönguleið þeirra upp fjallið hafi verið mjög krefjandi.

Natalie lifði af fallið og var flutt á sjúkrahús í þyrlu. Hún var í öndunarvél á gjörgæsludeild í sex daga en fjölskyldan hennar tók síðan þá erfiðu ákvörðun að taka öndunarvélina úr sambandi. Natalie lést 21. ágúst síðastliðinn.

Stichová var þekkt íþróttakona í heimalandi sínu en einnig þekkt sem áhrifavaldur þar sem hún sýndi myndir af sínum ferðalögum um heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×