Íslenski boltinn

„Lítur út fyrir það að hún muni ekki spila fót­bolta í langan tíma“

Hinrik Wöhler skrifar
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, þurfti að sætta sig við tap á móti toppliði deildarinnar.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH, þurfti að sætta sig við tap á móti toppliði deildarinnar. Vísir/Anton Brink

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, fór tómhentur heim af Kaplakrikavelli í dag. FH mætti meistaraliði Vals og sigruðu gestirnir leikinn örugglega 4-2.

„Það voru sex mörk í dag en því miður fyrir FH-inga var það tap í dag,“ sagði Guðni eftir leikinn.

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom FH yfir á 15. mínútu með glæsilegu marki en gestirnir voru ekki lengi að svara og jöfnuðu þremur mínútum síðar.

„Þetta leit alveg þokkalega út í fyrri hálfleik. Það verður bara að segjast, þegar við missum Breukelen [Woodard] af velli í alvarleg meiðsli að það sló okkur út af laginu. Leikmenn voru sjokkeraðir inn í klefa í hálfleik,“ sagði Guðni um fyrri hálfleikinn.

Einn af máttarstólpum í liði FH, Breukelen Woodard, meiddist alvarlega í lok fyrri hálfleiks og stöðva þurfti leikinn í tæplega tíu mínútur. Guðni telur að hún verði frá í marga mánuði.

Sóknarmaðurinn öflugi, Breukelen Woodard, mun ekki taka þátt meira á tímabilinu.Vísir/Pawel

„Hún virðist hafa fest sig í grasinu af einhverju leyti og sneri upp á hnéð. Hún fann fyrir að eitthvað gaf sig í hnénu og það veit ekki á gott. Þetta lítur ekki alls vel út, því miður fyrir hana.“

„Það lítur út fyrir það að hún muni ekki spila fótbolta í langan tíma,“ bætti Guðni við.

Sanngjarn sigur Vals

„Þau gera þrjú mörk af sama radíus, þarna fyrir utan teig. Þær eru ofboðslega „clynical“ og einstaklingsgæðin eru gríðarleg, það mesta og besta í deildinni og þær bara refsa.“

„Við erum ekki almennilega vakandi þegar þær eru fyrir framan teiginn og þá refsa þær svona. Heilt yfir vinna þær sanngjarnt,“ segir Guðni.

FH situr í fimmta sæti deildarinnar og þar af leiðandi leika í efri hluta Bestu deildarinnar eftir tvískiptingu. Guðni ætlar að setjast við teikniborðið og setja raunhæft markmið fyrir síðustu leikina.

„Nú er hefðbundin deildarkeppni búin og við erum réttilega í efri hlutanum. Við sjáum og skoðum eftir þessa umferð. Það eru fimm stig í þriðja sætið og við setjum okkur markmið, hvað getum við gert og hvað er raunhæft og reynum að hafa að einhverju að keppa,“ sagði þjálfarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×