Innlent

Skaftárhlaup „lítið og krútt­legt“ en gæti staðið yfir lengi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mynd frá Skaftárhlaupi árið 2021.
Mynd frá Skaftárhlaupi árið 2021. Egill Aðalsteinsson

Rennsli í Skaftá hefur verið stöðugt síðan í gær og mælist í kringum 180 rúmmetra á sekúndu við Sveinstind. Hlaupið hefur enn sem komið er ekki nein áhrif á innviði eða vegi á svæðinu.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að enn liggi ekki fyrir hvort hlaupi úr Eystri eða Vestari Skaftárkatli en sá vestari er talinn líklegri. Lengra sé síðan síðast hljóp úr honum og yfirstandandi hlaup beri einkenni fyrri hlaupa úr vestari katlinum.

Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.Veðurstofa Íslands

„Rennslið er sambærilegt við mikið sumarrennsli en í lægri kantinum miðað við hámarksrennsli síðustu Skaftárhlaupa. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu, en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir hlaupið ekki ógna innviðum að svo stöddu en brýnir til fólks sem er á ferðum á jöklinum að halda sig frá kötlunum umræddu og jökulsporðinum.

„Það er lítið og krúttlegt í bili en gæti staðið yfir lengi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×