Fótbolti

Atli Barkar­son á leið til Belgíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Atli Barkarson í einum af fjórum A-landsleikjum sínum.
Atli Barkarson í einum af fjórum A-landsleikjum sínum. Jonathan Moscrop/Getty Images

Atli Barkarson, leikmaður Sönderjyske í Danmörku, er á leið í belgíska boltann. Þar mun hann ganga í raðir B-deildarliðsins Zulte-Waregem.

Hinn 23 ára gamli Atli hefur komið víða við á sínum ferli til þessa en hann fór ungur að árum til Norwich City þegar Kanarífuglarnir flugu hingað til lands og sóttu jafnframt Ísak Snæ Þorvaldsson.

Þaðan lá leið Atla til Fredrikstad í Noregi og svo aftur heim þar sem hann spilaði frábærlega með Víkingum sem urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar meðan Atla naut við.

Hann gekk í raðir Sönderjyske í janúar 2022 og hefur nú spilað 61 leik fyrir félagið, gefið átta stoðsendingar og skorað tvö mörk. Hann hefur spilað alla fjóra deildarleiki liðsins frá upphafi til enda á þessari leiktíð og því koma tíðindin heldur á óvart. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar í endurkomu sinni í deild þeirra bestu og er með aðeins eitt stig að loknum fjórum umferðum.

Það er belgíski blaðamaðurinn Sacha Tavolieri sem greinir frá þessu á X-síðu sinni, áður Twitter. Þar segir að Belgíska félagið borgi um 300 þúsund evrur fyrir leikmanninn eða tæpar 46 milljónir. Ef til vill er það tilboð sem Sönderjyske getur einfaldlega ekki hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×