Erlent

Rússar saka Nató og Vestur­lönd um aðild að á­hlaupi Úkraínu­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskir hermenn snúa aftur frá Rússlandi.
Úkraínskir hermenn snúa aftur frá Rússlandi. AP/Evgeniy Maloletka

Nikolai Patrushev, einn talsmanna stjórnvalda í Moskvu, sagði í samtali við dagblaðið Izvestia í gær að Atlantshafsbandalagið og Vesturlönd hefðu átt þátt í skipulagningu áhlaups Úkraínumanna inn í Rússland.

Talsmenn Hvíta hússins sögðu fyrr í vikunni að stjórnvöld vestanhafs hefðu ekki haft vitneskju um fyrirætlanir Úkraínumanna en Patrushev dregur það í efa.

„Fullyrðingar leiðtoga Bandaríkjanna um að þau hafi ekki átt þátt í glæpum Kænugarðs í Kursk-héraði eru ósannar. Án þátttöku þeirra og stuðningi hefðu stjórnvöld í Kænugarði ekki hætt sér inn í Rússland,“ sagði hann.

Samkvæmt BBC fékkst það staðfest í gær að Challenger 2 skriðdrekar frá Bretum hefðu verið notaðir í áhlaupinu. 

Þá sagði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti að hersveitir landsins væru enn í sókn og hefðu náð yfir 80 þéttbýliskjörnum á sitt vald. Neyðarástandi var lýst yfir í Belgorod.

Reykur stígur til himins eftir loftárásir Rússa í Sumy-héraði, skammt frá landamærunum.AP/Evgeniy Maloletka

Leiðtogar á Vesturlöndum, ekki síst Joe Biden Bandaríkjaforseti, hafa leitast við að styðja Úkraínu án þess að hætta á bein átök við Rússland en sérfræðingar segja sókn Úkraínumanna mögulega munu flækja stöðuna.

Reuters greindi frá því í gær að Alexander Lukashenko, forseti Belarús og einn nánasti bandamaður Vladim8ir Pútín Rússlandsforseta, hefði kallað eftir samningaviðræðum milli Rússlands og Úkraínu um að binda enda á átökin milli ríkjanna.

Virtist hann hafa áhyggjur af því að átökin gætu breiðst út og haft áhrif á Belarús og sagði að aðeins „háttsettir einstaklingar af bandarískum uppruna“ vildu að stríðið héldi áfram. Vesturlönd væru að hvetja Úkraínumenn áfram þar sem þau vildu sjá Rússland og Úkraínu tortíma hvort öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×