Handbolti

Stór skellur í fyrsta leik á HM í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Átján ára stelpurnar byrja HM ekki vel en þær fá tvo leiki til viðbótar í riðlinum til að sýna sitt rétta andlit.
Átján ára stelpurnar byrja HM ekki vel en þær fá tvo leiki til viðbótar í riðlinum til að sýna sitt rétta andlit. @hsi_iceland

Stelpurnar í íslenska átján ára landsliðinu í handbolta töpuðu stórt í fyrsta leik sínum í heimsmeistarakeppni U18 í Chuzhou í Kína.

Tékkland vann ellefu marka sigur á Íslandi, 28-17, eftir að hafa verið tólf mörkum yfir í hálfleik, 16-4.

Íslensku stelpurnar höfðu tapað með sex mörkum á móti þessu tékkneska liði á EM í fyrrasumar en nú gekk mun verr á móti þessu öfluga liði.

Tékkar skoruðu fimm fyrstu mörk leiksins og komust í 7-1. Eftir þessa slæmu byrjun áttu okkar stelpur á brattann að sækja. Enginn leikmaður íslenska liðsins skorað meira en eitt mark í fyrri hálfleiknum þar sem skotnýtingin var bara 22 prósent (4 mörk úr 18 skotum).

Íslensku stelpurnar voru því tólf mörkum undir í hálfleik en þær skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og þvinguðu fram tékkneskt leikhlé eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Það var allt annað að sjá íslenska liðið sem vann fyrstu tíu mínúturnar 4-1. Tékkarnir hleyptu þeim þó ekki mikið nær og unnu öruggan sigur.

Það var þó allt annað að skora þrettán mörk í hálfleik en bara fjögur mörk og núna þurfa stelpurnar bara að byggja ofan á þennan seinni hálfleik.

Dagmar Guðrún Pálsdóttir og Þóra Hrafnkelsdóttir voru markahæstar í íslenska liðinu með þrjú mörk hvor. Þær Guðmunda Auður Guðjónsdóttir, Alexandra Ósk Viktorsdóttir og Lydía Gunnþórsdóttir skoruðu allar tvö mörk.

Íslensku stelpurnar fá tækifæri til að sýna sitt rétta andlit í hinum leikjum riðilsins á móti Þýskalandi og Gíneu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×