Aðgerðin stæði enn yfir.
Nokkrum klukkustundum áður en Syrski og Selenskí ræddu saman hafði Alexei Smirnov, starfandi héraðsstjóri Kursk, áætlað að Úkraínumenn hefðu náð um það bil 28 þéttbýliskjörnum á sitt vald, á svæði sem væri um það bil 40 km breitt og næði um 12 km inn í landið.
Úkraínumenn hafa gefið lítið upp um innrás sína inn í Rússland, sem virðist hafa komið yfirvöldum í Rússlandi verulega á óvart. Um það bil 121 þúsund íbúar Kursk hafa flúið heimili sín að sögn Smirnov, tólf almennir borgarar látist og 121 særst.
Yfirvöld í Kursk greindu frá því í gær að þau hefðu ákveðið að rýma Belovsky, þar sem íbúar telja um 14 þúsund, og þá ákváðu yfirvöld í Belgorod að rýma Krasnoyaruzhky.
Selenskí sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að aðgerðin varðaði öryggismál en Rússar hefðu gert ófáar árásir á Úkraínu frá Kursk. Sumy-hérað hefði tli að mynda orðið fyrir 2.100 árásum frá Kursk frá byrjun sumars.
„Fyrst Pútín er svona staðráðinn í því að berjast verður að neyða Rússland til að semja um frið,“ sagði Selenskí. „Rússar færðu öðrum stríð og nú sækir það þá heim.“
Andriy Zagorodnyuk, fyrrverandi varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði í samtali við Reuters að svo virtist sem aðgerð Úkraínumanna í Kursk virtist ætlað að dreifa athygli Rússa frá aðgerðum í Úkraínu. Þá hefur AFP eftir úkraínskum embættismanni að hann geri ráð fyrir að Rússar muni að lokum hrinda sókninni inn í Kursk.