Handbolti

Ís­lenski Daninn náði slemmunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg fagnar Ólympíugullinu með liðfélögum sínum Mathias Gidsel, Henrik Moellgaard og Mikkel Hansen.
Hans Lindberg fagnar Ólympíugullinu með liðfélögum sínum Mathias Gidsel, Henrik Moellgaard og Mikkel Hansen. Getty/Alex Davidson

Danski landsliðsmaðurinn Hans Lindberg kom sér í úrvalshóp í gær þegar hann varð Ólympíumeistari í París.

Lindberg var í hlutverki varamanns þegar danska landsliðið varð Ólympíumeistari í Ríó árið 2016 en Guðmundur Guðmundsson þurfti þá ekki að kalla á hann inn í hópinn. Lindberg fékk því ekki gullið þá.

Nú fékk Lindberg aftur á móti að vera með og kemur heim frá París með Ólympíugull um hálsinn.

Með því að vinna Ólympíugullið hefur hann unnið stóru handboltaslemmuna (Grand Slam) en til að ná henni þarf viðkomandi leikmaður að vinna Ólympíugull, EM-gull, HM-gull og svo Meistaradeildina.

Lindberg hafði orðið tvisvar sinnum heimsmeistari (2019 og 2023) og tvisvar sinnum Evrópumeistari (2008 og 2012) með danska landsliðinu. Hann vann síðan Meistaradeildina með HSV Hamburg árið 2013.

Liðsfélagi hans, Niklas Landin hafði áður komist í hópinn sem og og Lasse Svan, fyrrum liðsfélagi hans í danska landsliðinu.

Annars eru Frakkar mjög áberandi á listanum sem danski blaðamaðurinn Rasmus Boysen tók saman og má sjá hér fyrir neðan.

Lindberg hefur alls unnið tíu verðlaun með danska landsliðinu á ÓL (1), HM (4) og EM (5) eða fimm gullverðlaun, fern silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.

Hans Lindberg á íslenska foreldra en hefur búið alla tíð í Danmörku. Það kom í raun aldrei til greina í huga hans að gefa kost á sér í íslenska landsliðið. „Ég lít ekki á sjálfan mig sem Íslending," sagði hann í samtali við Fréttablaðið á sínum tíma.

Lindberg hefur spilað 308 landsleiki fyrir Dani og skorað í þeim 809 mörk. Landsliðsferill hans nær yfir meira en 21 ár eða frá 19. mars 2003 til dagsins í dag.

  • Meðlimir í slemmuhóp handboltans:
  • Oleg Grebnev
  • Oleg Kiselyov
  • Jeromé Fernandez
  • Didier Dinart
  • Daniel Narcisse
  • Nikola Karabatic
  • Thierry Omeyer
  • Joel Abati
  • Luc Abalo
  • Michaël Guigou
  • Cedric Sorhaindo
  • Lasse Svan
  • Niklas Landin
  • Vincent Gerard
  • Valentin Porte
  • Dika Mem
  • Timothey N’Guessan
  • Ludovic Fabregas
  • Hans Lindberg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×