Dukic drukknaði í fyrstu keppnisgrein heimsleikanna í Texas í gær. Þegar hann skilaði sér ekki yfir endalínuna var farið að leita að honum. Bátar leituðu á vatninu og kafarar voru sendir á svæðið. Forsvarsmenn heimsleikanna staðfestu svo að keppandi hefði fundist látinn.
Fjölmargir hafa minnst Dukic eftir þetta hræðilega slys. Þeirra á meðal eru íslensku heimsmeistararnir Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir.
„Allar mínar bænir fara til fjölskyldu Lazars. Þetta er sorglegra en orð fá lýst,“ skrifaði Katrín Tanja í færslu á Instagram í gær.

Söfnun er hafin fyrir fjölskyldu Dukic í gegnum fjáröflunarsíðuna GoFundMe. Dágóð upphæð hefur þegar safnast og ljóst er að CrossFit-heimurinn ætlar að gera sitt til að hjálpa fjölskyldu Dukic á þessum erfiðu tímum.