Handbolti

Frakkar rétt sluppu inn í átta liða úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dika Mem fagnar mikilvægu marki fyrir franska landsliðið í sigrinum á Ungverjum í dag.
Dika Mem fagnar mikilvægu marki fyrir franska landsliðið í sigrinum á Ungverjum í dag. Getty/Buda Mendes

Franska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum á Ólympíuleikunum í París með sigri á Ungverjum í dag.

Gestgjafar Frakka máttu alls ekki tapa leiknum í dag en liðið hefur ekki verið allt of sannfærandi á heimavelli með aðeins einn sigur í fyrstu fjórum leikjunum sinum.

Franska liðið stóðst pressuna í dag og vann fjögurra marka sigur á Ungverjalandi, 24-20, en Ungverjarnir hefðu komist áfram á kostnað Frakka með sigri.

Frakkar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 11-8, en ungverska liðið vann fyrstu fimmtán mínútur seinni hálfleiksins 10-5 og náði fyrir vikið tveggja marka forystu.

Frakkarnir fóru loksins aftur í gagn og lönduðu lífsnauðsynlegum sigri með góðum endaspretti.

Elohim Prandi skoraði sjö mörk fyrir Frakka en þeir Dika Mem og Hugo Descat voru með fimm mörk hvor.

Ungverjaland og Argentína sitja þar með eftir í riðlinum en Danmörk, Egyptaland, Noregur og Frakkland fara í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×