Handbolti

Mjög ró­leg byrjun en stór­sigur hjá stelpunum hans Þóris

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henny Reistad fagnar hér í stórsigri norska liðsins í dag.
Henny Reistad fagnar hér í stórsigri norska liðsins í dag. Getty/Luke Hales

Norska kvennalandsliðið í handbolta vann í kvöld sinn fjórða sigur í röð á Ólympíuleikunum í París.

Norska liðið vann þá tólf marka sigur á Þýskalandi, 30-18, í lokaleik riðlakeppninnar í dag en þær norsku voru komnar áfram í átta liða úrslitin fyrir leikinn.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar töpuðu óvænt á móti Svíum í fyrsta leik en hafa svarað því inn á gólfinu í öllum leikjum sínum síðan. Liðið vann níu marka sigur á Danmörku (27-18), sex marka sigur á Suður Kóreu (26-20), sjö marka sigur á Slóveníu (29-22) og svo þennan tólf marka sigur í kvöld.

Henny Reistad var markahæst hjá Noregi með átta mörk og Stine Bredal Oftedal skoraði fjögur mörk.

Norsku stelpurnar skoruðu ekki á fyrstu sex mínútum leiksins og lentu 3-0 undir í upphafi.

Það bjargaði miklu fyrir Noreg að Katrine Lunde varði tvö vítaskot á fyrstu átta mínútum leiksins. Þýska liðið hefði getað náð enn meiri forystu á upphafsmínútunum.

Norska liðið fór síðan í gang og skoraði sjö mörk í röð sem skilaði þeim 7-3 forystu og þýska liðið þurfti að taka leikhlé.

Noregur var síðan sex mörkum yfir í hálfleik, 14-8, og keyrði síðan yfir þær þýsku í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×