Enski boltinn

Ætlar að þagga niður í þeim sem segja ljóta hluti um sig á veraldar­vefnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Beto stefnir á að gera betur á komandi leiktíð.
Beto stefnir á að gera betur á komandi leiktíð. Stu Forster/Getty Images

Beto, framherji Everton, átti erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Hann ætlar sér að þagga niður í þeim sem hata og er með skjáskot af hinum ýmsu ummælum á netinu til að hvetja sig áfram.

Hinn 26 ára gamli Beto gekk í raðir Everton sumarið 2023 eftir að hafa skorað 10 mörk fyrir Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni tímabilið áður. Hann skoraði aðeins fimm mörk í öllum keppnum fyrir Everton og viðurkennir að hann hafi ekki sýnt sínar bestu hliðar.

„Við þurfum að skilja eitt, fótbolti er einfaldur,“ sagði Beto í viðtali við BBC Sport er hann var spurður hvort hann notaði gagnrýni á samfélagsmiðlum sem bensín í að bæta sig.

„Við spilum fótbolta að atvinnu á meðan þau eru að vinna átta eða tólf tíma vaktir og samt koma þau (á leikina). Það eru ekki allir að fara elska þig og ekki allir í þessu lífi munu hata þig. Það er allt í lagi mín vegna.“

„Stundum les ég ummæli um mig þegar ég spila illa eða klúðraði góðu færi. Þau blóta mér fyrir að klúðra færum en mér finnst það allt í lagi. Ég mun þagga niður í þessu fólki.“

„Ég tek þessu persónulega. Þegar ég mæti á æfingu daginn eftir eða vikuna eftir þá man ég eftir ummælunum og hugsa með mér „þessi einstaklingur fær ekki að segja svona hluti um mig aftur.“ Svo held ég áfram,“ sagði Beto að endingu.

Beto tók þátt í 37 leikjum á síðustu leiktíð, þar af voru 27 þar sem hann kom inn af bekknum. Hann vonast til að spila meira á komandi leiktíð en Dominic Calvert-Lewin, aðalframherji Everton, hefur verið orðaður við Newcastle United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×