Fótbolti

Fleygðu blysum inn á völlinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þónokkrum blysum var fleygt inn á grasið.
Þónokkrum blysum var fleygt inn á grasið. Vísir/Stöð 2 Sport

Stuðningsmenn albanska liðsins Vllaznia voru allt annað en ánægðir með frammistöðu sinna manna í 4-0 tapi fyrir Val ytra í kvöld. Þeir létu það í ljós undir lok leiks.

Stuðningsmenn albanska liðsins Vllaznia voru öðru sinni til vandræða í einvígi liðsins og Vals í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Upp úr sauð í lok fyrri leiks liðanna að Hlíðarenda fyrir sléttri viku. Stuðningsmenn og stjórnarmenn Vllaznia jusu þá úr skálum reiði sinnar eftir jöfnunarmark Vals undir lok leiks. Morðhótunum var beint að stuðningsmönnum, starfsmönnum og stjórnarmönnum Vals, ofbeldi beitt gegn öryggisgæslu og hrækt á dómara leiksins.

Kalla þurfti til lögreglu og tóku við mikil fundarhöld hjá Valsmönnum með fulltrúum KSÍ, UEFA og lögreglunnar. Skipta þurfti um dómara fyrir leik kvöldsins sem fram fór á heimavelli Vllaznia og bæta við öryggisgæslu fyrir starfslið Vals sem hélt utan í vikunni.

Valsmenn áttu frábæran leik í kvöld og unnu afar sannfærandi 4-0 sigur. Stöðva þurfti leikinn þegar um tvær mínútur lifðu leiks vegna hegðunar stuðningsmanna Vllaznia. Í þetta skiptið var fjölda blysa fleygt inn á keppnisvöllinn og ljóst að albanska liðið á sektir yfir höfði sér frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Það breytir þó litlu um úrslit leiksins. Valur vann 4-0, einvígið samanlagt 6-2, og mætir St. Mirren frá Skotlandi í næstu umferð keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×