Körfubolti

„Sann­færð um að þessi samningur lyfti körfuboltanum enn meira upp“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur er Íslandsmeistari karla í körfubolta. Tekst Valsmönnum að vinna Bónus-deildina á næsta tímabili?
Valur er Íslandsmeistari karla í körfubolta. Tekst Valsmönnum að vinna Bónus-deildina á næsta tímabili? vísir/anton

Mikil ánægja ríkir hjá Körfuknattleikssambandi Íslands með nýja samninginn við Bónus. Efstu deildir karla og kvenna munu bera nafn Bónus næstu þrjú árin hið minnsta.

„Þetta er samningur á svipuðum grunni og hefur verið við nafnarétthafa undanfarin ár. Það er mikið ánægjuefni að fá Bónus í lið með okkur. Að sama skapi þökkum við Subway fyrir gott og skemmtilegt samstarf undanfarin ár. Það er mikil eftirvænting eftir þessum nýja samningi,“ sagði Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, í samtali við Vísi í morgun.

„Þeir koma líka inn í afreks- og landsliðsstarfið eins og þeir sem hafa verið með nafnaréttinn. Það er bara mikil eftirvænting hjá okkur fyrir þessu nýja samstarfi. Þetta hefur verið í vinnslu í nokkra mánuði og það er virkilega gaman að segja frá þessu og opinbera þetta; að við fáum að spila í Bónus-deildunum næstu árin.“

Eins og Hannes segir mun Bónus styðja við landsliðs- og afreksstarf KKÍ og koma inn af enn meiri krafti þar en áður hefur verið gert.

„Já, þeir koma meira inn almennt í landsliðs- og afreksstarfið en þeir sem hafa verið með nafnaréttinn hafa áður gert,“ sagði Hannes. 

Að hans sögn er samningur KKÍ við Bónus til þriggja ára en vonast er til að samstarfið verði enn lengra.

„Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þeirri vinnu sem hefur verið hjá okkur undanfarnar vikur. Svona samningar taka langan tíma og ýmsar pælingar sem eru í gangi. Ég held að það verði ýmislegt nýtt og skemmtilegt sem körfuboltafólk og landsmenn allir eiga eftir að sjá á næstu árum. Bónusdeildirnar verða stór og skemmtilegur þáttur í starfi KKÍ. Við erum mjög ánægð og sannfærð um að þessi samningur lyfti körfuboltanum enn meira upp,“ sagði Hannes.

En er þetta stærsti samningur sem KKÍ hefur gert?

„Já, við getum alveg sagt það, að þetta sé stærsti samningur sem KKÍ hefur gert; þar sem hann er víðtækur og tekur á heildarstarfi sambandsins,“ svaraði framkvæmdastjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×